Spennumynd

Úff, af hverju gerir maður þetta nú. Ég var að horfa á bíómynd, þ.e.a.s. spennumynd á Skjá einum „Dead Calm“. Þetta er nú ekki það sniðugasta sem maður gerir þegar maður er einn heima. Ég tók mér pásu frá því að skrifa inn á tölvu úr skipsdagbók systur minnar og fór að horfa á þessa mynd á Skjá einum og viti menn hún gerist á skútu úti á rúmsjó. Ég ætla nú ekki að endurtaka efnið svo ég verði ekki ennþá hræddari en það var ekki dauður punktur í allri myndinni –  nema ef vera kynni þessir dauðu. Ætli ég fari ekki í kapal eða eitthvað álíka til að slappa aðeins af fyrir svefninn.


Annast hefur þetta verið góð vika. Haukur er búinn að vera hérna síðan á þriðjudag en er að byrja á næturvakt í nótt. Við höfum verið mjög dugleg að fara út að ganga í hvernig veðri sem er. Í morgun fannst okkur bara vera vor í lofti þegar við fórum í langan göngutúr í sól og logni. Haukur settist meira að segja út á pall með Moggann þegar við komum heim.


Karlotta hringdi í gærkvöldi og spurði hvort hún mætti nokkuð koma til mín eftir skóla af því það væri föstudagur. Það var nú auðsótt mál. Við Haukur fórum bæði að sækja hana og hún var rosalega lukkuleg þegar hún sá að afi var líka. Við fórum í Nóatún og keyptum okkur á salatbarnum til að hafa með okkur heim. Það er svona dagamunur sem við látum eftir okkur þegar ég sæki hana á föstudögum. Hún fór svo með afa út á pall til að sippa og afi var að kenna henni einhverja gamla leiki.


Ég fór svo í kvöldmat til Guðbjargar. Hún var búin að taka allt úr svefnherberginu sínu og undirbúa það að byrja að mála, en það hefur ekkert verið málað síðan hún flutti inn fyrir fjórum árum.  Ég vildi nú ekki vera að stoppa lengi því ég veit hvað það er mikill hugur í henni Guðbjörgu þegar hún drífur sig í að gera eitthvað.


Ætli ég láti þetta nú ekki duga í bili. Ég ætla alla vega EKKI að horfa á fleiri spennumyndir í kvöld. Verst að ég er búin með frábæru bókina sem ég var að lesa. Kannski maður fari eftir helgina að athuga með eitthvað af bókunum sem komu út fyrir jólin. Ætli þær séu ekki farnar að skila sér aftur inn á bókasafnið núna.


 


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar