Loksins, Loksins.

Þá er loksins komið að því að ég fari af bæ og ferðist pínulítið þetta árið.  Nú er ég búin að jafna mig ágætlega eftir bakaðgerðina sem gerð var fyrir fjórum vikum, svo ég ætla að þiggja boð um að vera með Guðbjörgu, Magnúsi Má og börnunum á Egilsstöðum í vikutíma.  Ég treysti mér nú ekki til að fara með þeim þegar þau lögðu upp akandi austur í einum áfanga dag, því fyrirvarinn var naumur svo fannst mér helst til langt að byrja á því að sitja í bíl í svona marga klukkutíma. Ég var hinsvegar svo heppin að fá ódýrt flugfar svo ég verð komin til þeirra um hádegi á morgun. Vonandi get ég samt ekið með þeim til baka því það er alltaf svo gaman að vera á ferðinni og sjá það sem fyrir augu ber.

Haukur verður nú ekki langt undan því hann fer með systkinum sínum til Borgarfjarðar eystri um helgina og verður þar í næstu viku að ganga frá dánarbúi móður þeirra.  Þetta er svona verkefni sem mér finnst að engir aðrir en þeir sem hlut eiga að máli komi nærri.  
Við skreppum eitthvað saman seinna í sumar – kannski Snæfellsnesið eða til Vestmannaeyja, en það hefur lengi verið á óskalistanum að fara til Vestmannaeyja, en einhvernveginn ekki komist í framkvæmd.

Austurferðin núna verður vonandi betri en í fyrrasumar, en þá var ég svo slæm af brjósklosinu, aðallega á nóttunni  að ég var alveg að gefast upp.  Nú bara hlakka ég til og ég veit að við sofum í góðum rúmum.

Ég ætla að taka myndir af öllu mögulegu og ómögulegu og hver veit nema ég skreyti bloggið mitt með einni eða tveimur ef vel tekst til.

Nú er best að klára að ganga frá farangrinum sínum svo allt sé klárt í fyrramálið.

Takk elsku Guðbjörg og Magnús Már að bjóða gömlu með. Ég hlakka mikið til.

Ég kveð ykkur glöð í bragði og óska ykkur góðra sumardaga framundan.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Loksins, Loksins.

  1. þórunn says:

    Góða ferð
    Mikið er gott að heyra að þú ert öll að ná þér. Þetta verður örugglega sæluvika hjá ykkur þarna fyrir austan, sérstaklega ef veðrið heldur áfram að leika við Héraðsbúa.

Skildu eftir svar við þórunn Hætta við svar