Austurferðin.

Mikið er nú gott þegar ástæðan fyrir því að ég skrifa ekki í dagbókina mína er sú, að ég er svo upptekin af því að njóta þess að vera til og gera eitthvað skemmtilegt, að ég hef bara engan tíma haft til þess að sinna dagbókinni minni.

Ég flaug til Egilsstaða um miðja síðustu viku og var þar í tæpa viku með Gðbjörgu, Magnúsi Má og krökkunum. Við flökkuðum víða og komum m.a. að Skriðuklaustri, en þangað hefur mig alltaf langað til þess að koma. 

Hér er fjölskyldan fyrir framan þetta myndarlega og fallega hús
og auðvitað í alveg rjómaveðri.

austurferd1.jpg

 

Við fórum líka að Kárahnjúkum og niður á Borgarfjörð eystri, en þar var næsta mynd tekin.
Ömmu langaði í mynd af Oddi að klappa selnum, og það var ekkert mál. Oddur minn stillti sér strax upp með selnum fyrir ömmu. Eftir myndatökuna sagði minn síðan prakkaralega.
"Amma, sástu ekkert skiltið? Það stendur á því að það megi ekki koma við selinn"
Já hann minnir nú stundum á Odd afa sinn – prakkaraskapurinn ekki mjög langt undan.

austurferd2.jpg

Á Borgarfirði er líka búið að koma upp Ævintýralandi fyrir krakka, mjög skemmtilega innréttað í húsnæði gömlu símstöðvarinnar. Þar hlusta börnin á álfasögur og aðrar gamlar sögur í I-pod og fara eftir efninu inn í allskonar hella og furðuveröld. Þarna skemmtu þau sér mjög vel. Hér er Karlotta mín og ánægjan leynir sér ekki.

austurferd3.jpg

 Hér standa þeir Ragnar Fannberg og Oddur Vilberg í dyrunum á húsinu sem við dvöldum í.

austurferd4.jpg

Þegar kom að heimferð þá var ég að spá í að fljúga heim eins og ég hafði komið austur, því ég vissi ekki hvort ég mætti ennþá sitja svona lengi í bíl – 10 tíma.  Ég lét mig hinsvegar hafa það að fara með þeim í bílnum og það gekk bara svona sallafínt. Við stoppuðum reglulega á leiðinni og réttum úr okkur og þegar við vorum komin að Kirkjubæjarklaustri þá hittum við Rögnu og Magnús, tengdaforeldra Guðbjargar, sem voru þar á húsbilnum sínum. Af þeirra alkunnu gestrisni þá vorum við drifin þar inn í kaffi og smurt brauð og vorum því mun hressari að takast á við síðasta spölinn til höfuðborgarinnar.  

austurferd5.jpg

Ég er afskaplega þakklát fyrir að hafa verið boðið með í þessa ferð og naut þess mjög að vera svona mikið með barnabörnunum mínum.

Það er ómetanlegt að eiga góða að.

 

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Austurferðin.

  1. Gott að heyra að allt gekk vel og allir skemmtu sér. Farðu nú vel með bakið þitt. Kærust í bæinn.

  2. Anna Bj. says:

    Mikið er gott að vita að þú ert komin heim heilu og höldnu og að það var svona gaman hjá ykkur. – Ég fór austur undir Eyjafjöll með tveim barnanna minna og co og við áttum svo yndislega helgi þar með svo mörgum góðum ættingjum. -Núna var ég að koma heim úr sumarbúst. og veðrið var aldeilis frábært og allur túrinn. Fór fyrst í 50 ára afm.bröns til Möggu syst. Heyrumst/abj

  3. þórunn says:

    Gaman, gaman
    Það er enginn vafi á því að þú hefur átt góða daga þarna fyrir austan, gott að heyra að þér líður betur í bakinu.

Skildu eftir svar