Lífsspilið.

Nú hefur mér verið gefið enn eitt árið til þess vera með ástvinum mínum og fyrir það vil ég þakka. Ég er hef verið spurð hvort það sé ekki erfitt að vera komin á sjötugsaldurinn og bara ellin framundan. Ég hef hins vegar verið þakklát fyrir hvert afmæli sem ég hef átt og fundist það í raun forréttindi að hafa verið gefið það árið. Það fá allir sína úthlutun og ég er mjög sátt við þá úthlutun sem ég hef fengið.  Það eru nefnilega hreint ekki allir sem fæddust sama ár og ég svo heppnir að vera enn að eiga afmæli.  Það er t.d. stutt síðan ég las minningargrein um bekkjarsystur mína úr barnaskólanum.

Þessi skrokkur sem maður fékk að láni til þess að notast við í lífinu hefur stundum verið að stríða manni svolítið, en eins og gengur með stríðni þá svíður stundum undan henni en svo verður allt gott aftur. Þannig hefur þetta nú gengið.

Auðvitað ber manni að fara vel með skrokkinn eins og annað sem maður fær að láni eða er falið að varðveita og maður lætur gera við það sem bilar og fægir og pússar eftir þörfum. Stundum finnst manni komnar óþarflega margar sprungur í yfirborðið, en þá ber að líta á það að hlutur sem búið er að nota í 64 ár hlýtur auðvitað á einhvern hátt að bera þess merki að hann hefur verið notaður.

Eins og venjulega á svona tímamótum þá reikar hugurinn til baka og maður staldrar við alls konar minningar, sumar svo ljúfar en aðrar sem hafa reynt talsvert á sálartetrið. Ég er þakklát fyrir allar þessar minningar bæði þær ljúfu og þær sáru, því það eru jú þær sáru sem þroska mann mest á lífsleiðinni.

Það má líkja þessu ferli sem okkur er falið að feta okkur í gegnum sem svona nokkurs konar Lífsspili sem stundum gengur vel og maður vinnur spilið, eða það gengur ekki eins vel og þá þarf að sætta sig við að tapa í það skiptið.  Spilið er þó alltaf spennandi og skemmtilegt og það koma svo margir við sögu í þessu spili að þó maður tapi stöku sinnum þá er bara svo gefandi og gaman að spila með.

Ég sendi ykkur öllum sem hingað rekast kærar kveðjur og þakka ykkur fyrir að hafa gefið því tíma að spila Lífsspilið með mér. Vonandi eigum við eftir að spila spilið saman í mörg ár í viðbót.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Lífsspilið.

  1. Sivva says:

    Aldur og fyrri störf
    Ég verð nú bara að segja Ragna mín að þú hefuer ekkert elst síðan ég kynntist þér og bara yngst í útliti ef eitthvað er. Vona að ég beri þá gæfu að líta svona vel út komin á sjötugsaldurinn. knús Sivva

  2. þórunn says:

    Hamingjuóskir
    Bestu kveðjur til þín Ragna mín og hamingjuóskir í tilefni dagsins. Það er notalegt að lesa jákvæðu skrifin þín.

  3. Katla says:

    Til hamingju með lífsspilið kæra Ragna, held þú sért búin að spila vel og eigir eftir að spila enn betur.

  4. Svanfríður says:

    Þú ert bara yndisleg og ég er þakklát fyrir að hafa kynnst þér.

  5. Ragna says:

    Þakka ykkur fyrir kveðjurnar.

Skildu eftir svar