Hugleiðingar á aðventu.

Mér finnst aðventan vera sá tími sem maður skoðar hvað mest hug sinn og hjarta. Það bregst ekki að á þessum árstíma færist tíminn aftur á bak. Já oft færist hann aftur um marga áratugi og minningarnar frá bernskujólunum verða svo ljóslifandi og ótrúlegustu smáatriði skjóta upp kollinum.  Um daginn þegar við Haukur gengum niður Laugaveg og ég gekk fram hjá húsinu sem í dag er kallað Kirkjuhúsið, en hýsti í gamla daga stórverslunina Hjá Marteini, þá mundi ég svo ljóslifandi eftir því þegar ég var líklega átta ára gömul  og fór með mömmu í bæinn fyrir jólin til þess að kaupa á mig jólakápu. Þetta var í fyrsta skipti sem ég átti að fá búðarkápu. Fram að þessu hafði mamma alltaf saumað á mig öll föt og oftar en ekki upp úr fötum af eldri systur minni.
Ég man hvernig veðrið var þennan dag, snjór á jörðu og svona snjófjúk öðru hvoru. Mikið var ég spennt og mér fannst ég eins og prinsessurnar í bókunum þegar ég fór inn í svona fína búð að máta kápu sem ég átti sjálf að eiga. Ég man líka að kápan sem mamma keypti var blá ullarkápa með hettu og hvítt inni í hettunni – hollensk kápa var sagt í búðinni. Það sem meira var í þessari sömu bæjarferð, voru líka keyptir jólaskór. Svartir lakkskór með bandi sem hnepptist yfir ristina.  Á leiðinni heim í strætó þá var ég alltaf að fá að kíkja ofan í pokann til þess að fá að sjá kápuna. Ég held ég hafi bara ekki alveg getað trúað því að ég ætti að fá svona fína kápu. Skóna fékk ég svo að sofa með í rúminu hjá mér um nóttina.
Mikið finnst mér yndislegt þegar svona minningar hellast yfir mig.

Stundum velti ég því fyrir mér hverjar minningar barna, sem nú eru að alast upp veða þegar þau eldast og hugsa til baka til aðventu bernskunnar og jólahátíðarinnar. Ætli þau muni þá hvernig útlitið á jólafötunum þeirra var eða hvaða jólagjafir þau hafa fengið og frá hverjum?  Eða hvort þau átta sig á því að bak við hverja flík og hvern hlut sem þeim er gefinn liggur vinna að baki. Foreldrar vinna oft mjög langan vinnudag til þess að geta gefið börnum sín allt sem hugur þeirra girnist.  Ég vona svo sannarlega að börn í dag hafi ekki orðið fórnarlömb góðæris síðustu ára og þau hafi hugfast að …

  Hamingjan felst ekki í því að fá allt sem hugurinn girnist.
Hamingjan felst í því
að meta hvern hlut sem manni er gefinn og
að meta allt sem fyrir mann er gert.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Hugleiðingar á aðventu.

  1. Borghildur says:

    Yndisleg lesning. 🙂 Það eru svo margar svona krúttlegar minningar sem maður á, gott að rifja þær upp öðru hvoru svo þær hverfi ekki í óminnisþokuna. xxx

  2. Katla says:

    Tímarnir hafa mikið breyst á skömmum tíma. Þetta hugsa ég oft um þessa dagana þegar ég stend vaktina til 22:00 í tuskubúð svo fólk geti verslað fyrir jólin! Vonandi áttar ungviðið sig sjálft á þessu, kannski ekki fyrr en þau sjálf ala sér önn, en útrásin öll í þjóðfélaginu mætti vera minni að öllu leiti. Lífið og hamingjan er ekki sjálfgefin, við vinnum fyrir henni.
    Takk fyrir góðann pistil og kær kveðja til þín: )

  3. Þórunn says:

    Hugleiðing
    Ég hverf sjálf til baka í huganum við að lesa þessi orð þín, já það er mikið breytt og margs að minnast. Vonandi verða þessi jól góð í minningunni hjá sem flestum þó margir virðist eiga erfitt þessa dagana.
    Góðar kveðjur til þín og Hauks frænda frá okkur Palla

  4. Guðbjörg says:

    Ungviðið
    Því miður held ég að margt ungviðið kunni ekkert að meta ýmsa hluti sem gerðir eru, hvorki gjafir né annað. Maður heyrir það bara oft á tali barna að það virðist flest vera metið eftir því hve mikið það kostar en ekki hvað það er sem býr að baki gjöfinni. þetta er hálfgert þjóðarmein og maður hugsar um hvernig verði með þessa kynslóð þegar hún þarf að fara að sjá fyrir sér sjálf !!!!

    Kv
    Guðbjörg

  5. afi says:

    Hátíð í bæ
    Gleðilega hátíð og heillaríkt komandi ár. Þakka liðnar bloggstundir.
    Kveðja afi.

Skildu eftir svar