Kosningadagur í dag.

Mér finnst gaman að rifja upp gamlar minningar og í dag fór ég að hugsa um slíka daga hér áður fyrr.

Fyrstu minningar mínar um kosningadag eru líklega frá því ég var svona 6 – 7 ára. Þá óku bílar um með gjallarhorn og báðu fólk að kjósa sinn flokk og þetta fannst okkur krökkunum rosalega spennandi. Þetta rifjaðist upp fyrir mér í gær þegar "Næst besti flokkurinn" notaði þesa aðferð og ók hér um á gömlum ísbíl með slíkum hrópum að glumdi í um allar götur.

Svo man ég eftir því að flestir létu sinn flokk aka sér á kjörstað. Bílarnir voru merktir með stóru X og viðkomandi bókstaf, svo það fór ekkert á milli mála hvað hver og einn í nágrenninu kaus. Foreldrar mínir áttu á slíkum degi oftar en venjulega erindi út að glugganum í borðkróknum í eldhúsinu svona rétt aðeins til að kíkja út á götuna ef það heyrðist í umferð.

Við mamma voru einu sinni í heimsókn í Hafnarfirði á kjördegi og þegar við ætluðum að fara heim með strætónum var okkur bent á að panta bara bíl frá flokknum og láta hann aka okkur á kjörstað því mamma átti eftir að kjósa. það varð því úr að við fórum í slíkum bíl merktum X-A, frá Hafnarfirði að Langholtsskóla þar sem kosið var. Annars fóru foreldrar mínir alltaf gangandi á kjörstað.

Svo var annað alveg rosalega spennandi, en þá var ég orðin eldri, líklega svona um fermingu.  Pabbi var mikill Alþýðuflokksmaður og var farinn að hjálpa til á flokksskrifstofunni á þessum tíma. Ég fékk að koma með og var heldur betur upp með mér að fá að fara og sitja inni í kjördeildum og merkja við þá sem komu. Á þessum árum sat fulltrúi frá hverjum flokk sem var í framboði í kjördeildum og merkti við alla sem komu. Síðan var farið yfir skrárnar og hringt í þá sem ekki höfðu mætt á kjörstað.  Það var mjög gaman og mikil stemning að fá að taka svona þátt í þessu. Lengi vel var Alþýðuflokkurinn minn flokkur, sjálfsagt af því pabbi hafði alltaf kosið hann og við hjónin kusum í nokkur ár alltaf sitt hvorn flokkinn.  Svo fór ég að taka eftir því að mér leist alltaf best á hlutina þegar flokkurinn var við stjórnvölinn sem Oddur kaus og smám saman skipti ég alveg um skoðun.

Árin eftir að við mamma vorum báðar orðnar ekkjur þá fórum við saman að kjósa og eftir að við kusum, þá var alltaf farið í Bakaríið í Álfheimunum og keyptar Napoleonsrjómakökur og það var sko mikið nammi að koma með það heim og fá góðan kaffisopa með.  

Nú bíður maður bara eftir úrslitum kosninganna í kvöld og jafnframt úrslitum söngvakeppninnar.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Kosningadagur í dag.

  1. Fyrstu kosningar sem ég man eftir voru forsetakosningarnar þegar Kristján Eldjárn vann. Og mikið hvað ég tók þátt í þeim slag, unglingurinn. Hef ekkert um kosningar í Rvík. að segja, en mér fannst Hera flott. Kveðja í bæinn.

  2. þórunn says:

    Kosningar
    ‘Eg man hvað mér fannst það spennandi að kjósa í fyrsta skiptið, það var engin spurning að menn klæddu sig í sitt fínasta púss til að fara á kjörstað í þá daga. Nú eru breyttir tímar, líka með klæðnað í leikhúsum og á tónleikum. Mér finnst að fólk eigi að sýna listamönnum þá virðingu að mæta þokkalega klæddir á staðinn.

  3. Ragna says:

    Já ég gleymdi einmitt að minnast á það hvað þetta voru miklir hátíðisdagar og allir í sínu fínasta pússi.
    Þakka þér fyrir Þórunn mín að koma með þennan punkt.

Skildu eftir svar við þórunn Hætta við svar