Flakkið mitt til og frá Bráðavakt þessa seinni jóladaga.

Ég ligg hérna uppi í rúmi með tölvuna, nokkuð sem ég hef aldrei gert, en á ekki um margt að velja núna til þess að láta tímann líða. Ástæðan fyrir því er sú, að ég er að fara í akút brjósklosaðgerð -eina enn – á næsta mánudag.

Nú er ég búin að kynnast niðurskurðinum í heilbrigðislkerfinu þessa daga frá því um áramótí, svo um munar. Ég var hvött til þess að setja söguna á bloggið mitt  og verð við því. 

Það byrjaði milli hátíðanna að ég var svo slæm í bakinu með verk fram í kvið og algjörlega lystarlaus.
Daginn fyrir gamlársdag talaði ég við heimilislækninn minn sem var hræddur um að það væri kannski sýking í ristli eða annað þess háttar og hann  myndi láta mig á sýklalyf til öryggis. Það væri hinsvegar erfitt fyrir sig að fá þetta neitt rannsakað svona daginn fyrir áramótin, en ef mér færi að líða verr þá skyldi ég fara niður á Bráðavakt í Fossvoginum og láta þá skoða þetta því þeir hefðu alla aðstöðu til þess að rannsaka þetta betur. Mér versnaði síðan áfram þennan dag og seinni partinn lét ég verða af því að fara til þeirra Fossvoginum. Þar var tekin blóðprufa og þvagprufa, hvorttveggja kom vel út svo mér var sagt að hætta á fúkkalyfinu og taka Voltaren og með það var ég send aftur heim. Gamlársdag þraukaði ég nú bara heima og treysti mér ekki í matinn hjá Guðbjörgu, tók bara bólgueyðandi og verkjalyf.  

Á nýjársdag fann ég að þetta var bara að versna og fyrir þrábeiðni dætranna ákvað ég að fara aðra ferð þarna uppeftir. Í þetta sinn datt nú einhverjum í hug að senda mig í röntgenmynd af kvið og þá kom í ljós að ristillinn var stíflaður uppúr og niðurúr. Ég var því send heim um miðnættið með lyfseðil upp á eitthvað til að losa þetta. Ég benti þeim á að þetta sæist utaná mér og það væri eins og dofi í þessu, en ég veit ekki hvort það var neitt hlustað á það.  Ekkert breyttist.

Daginn eftir fór ég enn á ný í Fossvoginn og bað um að mér yrði hjálpað að losa þetta því ég gæti alveg eins drukkið vatn það gerðist bara ekkert og ekkert í gangi í kviðarholinu sem benti til þess að þar væri einhver virkni. Bara þessi sári verkur í kviðnum og bakinu. Eftir að ég sat á hörðu stólunum  frammi í biðstofunni í 40 mínútur, en þeir voru alveg að kála mér, komst ég loks innfyrir og enn á ný var tekin skýrsla ég spurð um allt sem ég var búin að segja áður og hvaða lyf ég tæki og þar fram eftir götunu. Loksins þegar ég var svo komin í annað skoðunarherbergi beið ég í góða stund þar, en loks fékk einhverja túpu sem losaði eitthvað aðeins innan úr mér og svo átti ég að halda áfram að taka heima allt hitt sem ég var búin að fá.  Rúsínan hjá þeim í pylsuendanum var þegar meltingarsérfræðingurinn sem var á vakt sagði svo að ég ætti að tala við heimilislækninn og biðja hann að panta fyrir mig tölvusneiðmynd af kviðnum. Ég sá nú niðurskurðarhnífinn á lofti og vissi að ef þeir sendu mig í myndatökuna þá þyrfti spítalinn að borga, en ef heimilislæknirinn sendi mig þyrfti ég að borga sjálf. Með þetta fór ég heim.

Þar næsta dag fór ég til Jens heimilislæknir sem tók mér mjög vel. Hann er ekki maður margra orða en athugull og mjög traustur. Hann skoðaði mig mjög vel  og sagði mér að ef ég hefði verið með útbrot þá væri þetta ristill yfir vinstri helming líkamans, en það væri greinilega ekki, en verkirnir stöfuðu af einhverju og þetta virtust taugaverkir. Hann pantaði svo akút sneiðmynd af kviðnum og ég fór beint niður í Domus í myndatökuna og svo aftur beint beint til hans aftur með niðurstöðuna. Hann varð hins vegar áhyggjufullur yfir niðurstöðunni, ekki að það stæði að eitthvað alvarlegt væri að, nei það stóð nefnilega að ekkert sæist. Hann sagðist ekki sætta sig við þetta og sagðist ætla strax næsta morgun niður í Domus og skoða myndirnar sjálfur með Röntgenlæknunum og hringja svo til mín.

Daginn eftir kom það hinsvegar upp að ég svaf lítið sem ekkert um nóttina vegna verkja og um morguninn var mér í viðbót við það svo flökurt og staulaðist fram á bað til að’ kasta upp en þá fann ég að ég var að líða út af, greip þvottapoka sem ég bleytti og setti á ennið á mér og rétt náði að skreiðast aftur inn í rúm og hringdi beint í 112 því ég hélt bara að það hefði sprungið eitthvað inni í mér. Ég var því flutt í fjórðu ferðina mína í Fossvoginn, að þessu sinni í sjúkrabíl. Ég mátti velja mér rúm því enginn var kominn þarna klukkan hálf sjö um morguninn og þar sem ég er vanaföst valdi ég básinn sem ég var í í heimsókn númer tvö. Ég þurfti svo að bíða til kl. 9 eftir lækni því þeir voru á stofugangi.  Á meðan ég lá þarna og beið, þá hringdi heimilislækknirinn og var þá búinn að fara í Domus að skoða myndina. Hann sagði að þetta væri nýtt brjósklos sem væri neðst í brjóstbakinu og lægi þessvegna svona niður í kviðinn – út af því væri dofinn svona mikill því þetta væru taugaverkir. Ég sagði að það væri skrýtið að þeir hefðu ekki séð þetta röntgenlæknarnir, en hann sagðist bara hafa skoðað þetta allt mjög gaumgæfilega með tilliti til minnar fyrri sjúkrasögu og séð þetta þá efst á myndinni. Hann vildi svo að þeir á Bráðavaktinni hringdu til sín. 

Jæja, framhaldið á bráðavaktinni var síðan að þeir hefðu talað saman læknirnir og nú var þetta tekið föstum tökum. Það kom bakskurðlæknir til mín og sagði að farið yrði með mig á Landspítala við Hringbraut í MR-scan af hryggnum. Þeir væru búnir að skoða myndina sem Jens lét taka og ef niðurstaðan sýndi það sem hann hafði séð á hinni myndinni  þá myndi hann skera mig bakskurð við fyrsta tækifæri.

Til þess að gera langa sögu styttri þá varð niðurstaðan sú þegar ég kom til baka úr myndatökunni að mér var tilkynnt að þetta reyndist rétt og ég yrði skorin upp á mánudag og yrði líklega hringt í mig á föstudag vegna undirbúnings. Ég ætti hinsvegar að fara á stóran sterakúr þessa daga þangað til og byrja með 10 steratöflur á dag til þess að skjóta niður bólgurnar og svo fékk ég sterkt verkjalyf og  átti að liggja sem mest í rúminu. Vel á minnst ég átti líka að halda áfram að reyna að losa ristilinn heima svo ég hef verið að demba öllum þessum lyfjum í mig.

Þannig standa nú málin. Það sem stendur upp úr í þessu öllu saman er blessaður heimilislæknirinn sem tók þessu strax af alvöru, því án hans væri líklega ekki mikið búið að finna út og ég sjálfsagt verið send enn oftar fram og til baka sárþjáð til og frá Bráðavaktinni. Þetta kostaði fjórar ferðir í allt þangað og ef læknarnir þar halda að það sé af því að mér hafi leiðst svona heima hjá mér, eins og t.d. að vilja frekar vera hjá þeim á Nýjársdag fram til miðnættis, þá skjátlast þeim algjörlega.

Ég bara varð að skrásetja þetta hérna til þess að geta kíkt á það seinna, því maður er nú orðinn svolítið götóttur með smáatriðin þegar frá líður. Ég vildi líka láta koma fram hvað hann Jens heimilislæknir er góður læknir. Ég þakka honum fyrir mig og nú bíð ég bara eftir aðgerðinni eftir helgina. það eina sem ég hefði kannski viljað hafa öðruvísi er það, að Aron Björnsson sem skar mig svo snilldarlega í hitteðfyrra gerir ekki þessa aðgerð heldur Ingvar, sem var vakthafandi þennan morgun, afskaplega ljúfur og almennilegur maður, en ég þekki akkúrat ekkert til hans eða hans verka, en ég vona bara það besta.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

9 Responses to Flakkið mitt til og frá Bráðavakt þessa seinni jóladaga.

  1. Björk says:

    Þetta er alveg ótrúleg óheppni svona um hátíðarnar hjá þér Ragna mín og þessi ferðalög fram og til baka lýsa því hvernig heilbrigðiskerfið er orðið. Það verður aldrei fullþakkað að hafa svona frábæran heimilislækni eins og þú virðist vera með. Það er gott að þeir skuli ætla að skera þetta strax en ekki láta þig kveljast lengur. Vona að þetta gangi vel hjá þér og þú fáir bót sem allra best. Sendi þér batakveðjur.

  2. Ragna says:

    Þakka þér fyrir Björk mín. Já maður verður svo sannarlega var við niðurskurðinn í heilbrigðiskerfinu. En svo er spurning hver sparnaðurinn er þegar manneskja þarf að koma fjórar ferðir og taka daglangt upp rúm, í stað þess að rannsaka í þeirri fyrstu.

  3. Ja hérna Ragna mín, það á ekki af þér að ganga. Nú bið ég allar góðar vættir að vera með þér í því sem framundan er. Kærust kveðja frá okkur bestimann

  4. Ragna says:

    Þakka þér fyrir Guðlaug mín. Já þetta var nú ekki alveg á dagskránni hjá mér núna. En þessu verður að taka eins og hverju öðru hundsbeini og vona bara það besta. Þú þekkir nú líklega svona Guðlaug mín.

  5. Ragna says:

    Elsku Ragna,þetta er ljótt að lesa.Mikið óskaplega vona ég að þetta gangi nú allt upp og að þú fáir bata og það skjótan. Ég hugsa til þín og sendi þér alla þá strauma sem ég bý yfir. Knús í bæinn.

  6. Ragna sjálf says:

    Hver lagði þetta í belginn minn? Af því það vantar nafnið þá kemur nafnið mitt undir.

  7. Svanfríður says:

    Skrítið-það var ég,Svanfríður,sem lagði þetta í belginn.Kannski ég hafi gleymt að skrifa Svanfríður?En semsagt,þetta var ég…:)

  8. Ragna says:

    Þakka þér fyrir Svanfríður mín. Það er alltaf notalegra að vita hvaðan góðar kveðjur koma.

  9. Sigurrós says:

    Ég ákvað bara að það væri Ragna á Akureyri sem hefði lagt þetta í belginn… En það var sum sé Svanfríður? 🙂

    En það er skrýtið að nafnið þitt komi ef fólk gleymir að setja sitt nafn. Spyr tölvumanninn um það.

Skildu eftir svar