Er í sjokki

Já ég er í sjokki yfir fávitaskap og hugsunarleysi. 

Þannig er að hérna fyrir ofan bílskúrana okkar er nokkuð breið og stór aflíðandi brekka upp að næstu götu fyrir ofan. Á þessu svæði er að stærstum hluta krækiberjalyng og smár fallegur íslenskur gróður inn á milli.  Síðsumars og á haustin hefur verið svo gaman að sjá litlu krakkana hérna í kring tölta þarna um með litlu föturnar sínar að leita sér að einu og einu krækiberi.

Í gærmorgun gekk ég þarna framhjá og þá voru vinnuskólakrakkarnir að byrja að slá grassvæðið sem er í kringum þennan fallega reit sem tekur yfir allt miðjusvæðið. 

Seinni partinn í gær fannst mér svæðið eitthvað einkennilegt og það virtist svo dökkt og snautt. Þegar betur var að gáð kom í ljós að vinnuskólakrakkarnir voru búnir að fara með sláttuorf yfir allt svæðið. Ég bara trúði ekki mínum eigin augum.  Þetta finnst mér alveg hræðilegt umhverfisslys og svo sorglegt.

Ég hringdi í morgun í verkstjórann hjá Kópavogsbæ sem sér um þessi mál til þess að láta þá hjá bænum vita um þetta. Hann sagði að þeir vissu um þetta slys og væru algjörlega miður sín út af þessu. Þetta svæði hefði alltaf verið verndað og séð til þess að það fengi að njóta sín, en þessi hörmulegu mistök hefðu samt sem áður átt sér stað núna.
Við ræddum svo aðeins um nauðsyn þess að kenna börnum meira um umhverfi sitt og hvað ber að vernda og bera virðingu fyrir. Ég benti á að það mætti kannski auka útikennslu í skólunum að vorinu og gera það að skyldu að fara með börn um svona svæði og kenna þeim að bera virðingu fyrir slíkum gróðri. 

Mér finnst einkennilegast að enginn úr þeim hópi sem þarna var að störfum skyldi átta sig á því hvað það var sem þeir fóru með sláttuorfið yfir. Þeim hefur verið ekið að þessu svæði með orfin sín og bent á að slá það. Það var talsvert gras þarna í kring sem alltaf er slegið, en það hefur bara gleymst að benda þeim sérstaklega á að láta þetta svæði óslegið. 

Vonandi nær svæðið sér upp aftur, en það gæti tekið langan tíma og gæti tekið mörg ár, ef það þá nær sér nokkurntíman aftur. Ég þekki það ekki. 

Brýnum fyrir unga fólkinu að ganga vel um gróðurinn og kennum þeim að ganga af varúð um viðkvæm svæði eins og t.d. þau sem geyma fallega íslenska gróðurinn okkar, sérstaklega þennan viðkvæma smáa lággróður sem á erfitt með að ná sér upp aftur þegar hann er rifinn upp eða sleginn með sláttuorfi. 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Er í sjokki

  1. þórunn says:

    Þetta er sorgarsaga og sennilega líður krökkunum ekki vel, sem gerðu þetta en þau þekkja greinilega ekki gróðurinn og vita ekki hvað þetta tekur langan tíma að jafna sig, ef það gerir það þá nokkuntíma eins og þú segir. En sá sem sér um hópinn hefur greinilega ekki verið nógu vel vaknaður eða hefur ekkert meira vit á gróðrinum en unglingarnir sem unnu verkið. En svona óhöpp gerast alltaf annað slagið og virðist vera erfitt að koma í veg fyrir þau.
    Bestu kveðjur, Þórunn

  2. Anna Bj. says:

    Ég er hjartanlega sammála þér Ragna mín. Ég var á göngu þarna og að koma heim. Hafði dáðst að lágvaxna íslenska gróðrinum í brekkunni hæ. megin þegar maður kemur upp úr Dynsölum. Þarna voru 3 krakkar að slá í kring og ég hélt ég þyrfti ekki að segja þeim að láta þenna reit í friði. Mér syndust yfirmenn liggja í sólbaði hinum megin götunnar við bíl ….. Hefði betur tekið þau tali, því allt var horfið, blóðberg, óútsprungin gullmaðra, hrútaberjalyng o.fl. Leiðinlegt – grútfúlt.

  3. Þetta er ömurleg frásögn. Því miður held ég að vinnuskólafólkið okkar oft á tíðum hreint ekki hugsa út fyrir ipodinn. Líka; þeir sem leiðbeina eru oft óttarlegir skussar. Það er ljótt að segja þetta, en ég er ennþá að horfa á hálfstálpuð ungmenni raka hiklaust á móti vindi, varla kunnandi hvernig á að vinna með hana. Kærust í kotið.

  4. sko, ég meinti hrífuna! Gulla

Skildu eftir svar