Smá innleg.

Nú er ég að athuga hvort mér gengur betur að koma blogginu mínu inn eftir lagfæringar á vefnum. 

Ég er reyndar að skreppa í saumaklúbb á eftir svo þetta verður aðallega svona prufa.

Ég ætti kannski að nota tækifærið og ausa úr skálum reiði minnar svo ég verði afslöppuð eins og ungbarn í saumaklúbbnum á eftir.  
Ég  kynntist svo miklu tillitsleysi í gær þegar ég fór í Landsbankann í Hamrahlíðinni  að ég hefði ekki trúað því nema af því ég stóð frammi fyrir því  hvað fólk getur verið eitt í heiminum.
Ég fékk auðvitað hina bestu þjónustu í bankanum og ekkert yfir því að kvarta, en þegar ég kom út og sá að ég kæmist ekki inn í bílinn minn þá bæði brá mér og ég varð öskureið.  Stór jeppi hafði lagt svo nálægt bílstjóradyrunum hjá mér að ég kom ekki einu sinni handlegg á milli. Hann var alveg upp við spegilinn og ég var mest hissa á því að það skyldi ekki sjást á bílnum.

Ég ákvað að bíða eftir bílstjóranum, bæði til þess að gefa honum aðeins tóninn og einnig til þess að ég kæmist inn í bílinn.  Ég byrjaði að bíða og var að vappa þarna fyrir utan, svo fór ég inn í bankann en ég vissi auðvitað ekkert hver bílstjórinn væri svo ég fór aftur út. Þegar ég var búin að bíða í meira en korter þá nennti ég ekki að hanga þarna lengur því ég vissi ekkert nema maðurinn væri kominn á fund einhversstaðar í húsinu eða væri bara í vinnu þar – engin trygging fyrir því að hann væri neitt að koma á næstunni. Ég greip því til þess ráðs að klifra inn farþegamegin. Ég náði að prikast með vinstri fótinn yfir, en ég ætlaði aldrei að koma hægra fæti innfyrir því bakið á mér er ekki mjög sveigjanlegt og þetta var bara ferlega þröngt og erfitt – loksins tókst það þó.

Ég var svo að drepast í bakinu á alveg nýjum stað í gær og þrátt fyrir að taka sterka bólgueyðandi verkjatöflu fyrir svefninn fann ég fyrir þessu í alla nótt. Ég ætla sko að vona að hugsanir mínar í nótt hafi ratað til rétts bílstjóra og ég ætla rétt að vona að hann hafi einnig eytt nóttinni í að bylta sér og ekki náð að sofa neitt fyrir verkjum (aðallega vegna samviskubits) Já ég meina það, stundum getur maður bara ekki verið jákvæður – ég játa það bara hreinskilnislega.  Bílstjórinn þarf ekkert að vita að ég er nú skárri í dag eftir að taka svona lyf aftur um miðja nótt og enn aftur í morgun.

Magnús Már tengdasonur minn spurði af hverju ég hefði ekki tekið mynd. Ég hafði hinsvegar tekið myndavélina mína úr töskunni minni áður en ég fór að heiman og mundi auðvitað ekkert að ég á að geta tekið myndir á símann minn. Svona er nú það. 

Ég sendi ykkur kæru þolinmóðu bloggvinir mínar bestu kveðjur og þakka ykkur fyrir samveruna sem ég átti með ykkur  í Kringlunni um daginn. Jói minn ég þakka þér fyrir að bregðast við og laga stillingar á vefnum svo það detti ekki alltaf allt úr hjá mér. 

Nú er þetta að verða eins og við afhendingu Oscarsverðlaunanna svo ég held ég seti bara punktinn hér.  

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Smá innleg.

  1. Katla says:

    Ég hefði sjálf orðið öskureið, ég þoli ekki þegar fólk getur ekki gefið sér tíma til að leggja bílnum og virðist skítsama þó það leggi illa, og hvílíkur dónaskapur að leggja svoleiðis að bíl að ekki sé hægt að komast inn í hann.
    Frábært að hitta ykkur öll í Kringlunni og vonandi hagar betra sér nú betur : )

  2. Ragna says:

    Takk Katla mín og takk fyrir síðast. Já þetta var frábært hjá okkur.
    Betra hagar sér örugglega betur – alla vega er búið að laga það að allt detti út á meðan ég er að pára eitthvað inn á bloggið. Myndaalbúmið er meira mál að laga og tekur lengri tíma í pælingar og lagfæringu. Við bíðum þolinmóðar og ég vona bara það eitt að myndirnar séu ekki endanlega dottnar út. Ég get sett myndir inn í textann hjá mér – vona allavega að það sé í lagi og notfæri mér það örugglega.

  3. Katla says:

    Það segi ég með þér að vonandi eru myndirnar enn á sínum stað, það væri ekki skemmtilegt ef margra ára vinna við að setja þær inn væri horfin.

Skildu eftir svar