Jólin koma – eða hvað.

Í gær ætlaði ég að reyna að koma mér í gang til að gera eitthvað af viti. það var svo sem vit í því sem ég byrjaði á, að þvo úr gluggum og þurrka af, en það sem ég gerði næst var í raun ekkert vit í. það fóru nefnilega margir klukkutímar í það að skoða alls konar bæði gamalt og nýlegt dót hérna í skúffum og skápum í herbergjunum hjá mér. Sumt bara eitthvað sem að þessu sinni fór beint í ruslapoka, en annað sem ég taldi á þessari stundu merkilegt og setti það aftur inn í skáp eða ofaní skúffu. Ætli það sé ekki svona eitt ár síðan ég datt ofaní að gera það sama og þá taldi ég það svo merkilegt sem nú fór í ruslið, en alltaf bætist eitthvað við í skúffurnar og ég efast ekki um að á næsta ár fer það sama dót í ruslapokann og mér fannst nógu merkilegt núna til að geyma. Já, Guð má vita hvað það verður þá sem fær þá náð að fá að vera í skúffunum mínum áfram.  

Svo festist ég í að skoða eldgamlar myndir sem ég átti í umslagi og þar fann ég líka svolítið merkilegt. Ég fann borðskraut sem Edda systir mín, sem þá var við nám í Danmörku,  sendi til þess að skreyta með borðið í fermingarveislunni minni. 

 Hér átti að koma mynd sem ég tók af skrautinu en
það gekk ekki að koma henni inn en vonandi get ég sýnt ykkur hana seinna. 

———- 

Þegar ég var orðin rykfallin og sveitt eftir þessa atlögu þá dreif ég mig í sturtu og hringdi svo í vinkonu hérna í næstu götu og við skruppum í Konditoríið í Smáranum og fengum okkur kaffisopa og vitanlega tertusneið með því mér fannst ég eiga skilið verðlaun fyrir alla tiltektina. Svo kíktum við aðeins inn í Rúmfatalagerinn – Kannski til þess að leita að einhverju til að setja í staðinn fyrir það sem ég henti úr skúffum og skápum 🙂  

Mér hálf brá hinsvegar þegar við komum inn í Rúmfatalagerinn og ég sannfærðist á þeirri stundu um að nú væri ég orðin verulega rugluð og hefði misst úr tíma. Ég hélt nefnilega í sakleysi mínu að það væri ennþá október. Halló, jólin koma ekki fyrr en í desember.  Það sem blasti við okkur voru jólasveinar af öllum stærðum og gerðum ásamt jólaljósum af öllum stærðum og gerðum hvert sem litið var.  Svo áttaði sú ruglaða sig auðvitað á því að nú eru breyttir tíma og jólin koma nú fyrr og fyrr með hverju árinu sem líður. Ætli við endum ekki bara með því að halda jól allt árið. 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Jólin koma – eða hvað.

  1. Anna Bj. says:

    Góð hjá þér skrifin, Didda mín.
    Kærar þakkir fyrir indæla stund í gær

  2. þórunn says:

    Sem betur fer hef ég sloppið enn við að sjá jólasveina eða annað dót sem minnir á jólin. En ég sé að maður þarf ekki endilega að flytja búferlum til að taka til og henda einhverju sem manni fannst ómissandi á síðasta ári. Gott að gera svona hreingerningu annað slagið. Sjáumst vonandi fljótlega, kveðja frá Palla og mér.

Skildu eftir svar