Á lífi og í framför.

Ég á sérstaklega einum manni miklar þakkir skildar og ekki í fyrsta skipti. Það er hann Jakob Gunnarsson sjúkraþjálfari sem enn og aftur hefur komið mér til bjargar svo nú sé ég fram á bjartari tíma. Ég er nú ekki orðin góð enda væri þá um kraftaverk að ræða en  ég get alveg sungið „alltaf betri og betri, betri í dag en í gær“. Ég var send í segulómun á hálsi og höfði í gær og átti að fá niðurstöðuna í dag.  Ég kveið nú mest fyrir því í tvennum skilningi, að læknarnir segðu að þeir sæju ekkert. Það hljómar nefnilega ekki vel þegar verið er að skoða í manni heilabúið að „ekkert hafi sést“.  Hitt er að ekki finnist hvað er að manni. En það kom sem sagt í ljós að það eru miklar slitbreytingar á hálsliðunum og bein og brjóskmyndun á liðbrúnunum (gaddar). Læknarnir telja sem sagt að það hafi þrengst svo í mænugöngunum og þess vegna hafi ég verið með flökurleikann og uppköstin. Rosalegi höfuðverkurinn hafi síðan stafað af krampa í  vöðvunum í kring sem ég hafi  brugðist ósjálfrátt við með því að vera ennþá meira í hnút.


Nú er Jakob sem sagt búinn að teygja hressilega á hálsinum á mér og raða í mig nærri öllum nálunum úr nálapúðanum sínum. Hann lét mig líka kaupa hálsstrekk svo nú get ég teygt mig sjálf heima.  Ég á sem sagt von á að ná verulegum bata og verða nokkrum sentimetrum hærri ef ég verð nógu dugleg að strekkja 🙂  –  ekki amalegt það.


Þetta er nú orðinn lengri og ítarlegri pistill en til stóð og ég veit að ég fengi skömm í hattinn fyrir að vera búin að pikka þetta inn og farin að finna verulega fyrir því. Ég ætla því að vera þæg og hætta,  en eitt að lokum  


G L E Ð I L E G T  S U M A R


OG  KÆRAR  ÞAKKIR  FYRIR  VETURINN.


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Á lífi og í framför.

  1. Gleðilegt sumar!
    Gleðilegt sumar, Ragna mín og takk fyrir veturinn. Gott að sjúkraþjálfunin gerir gagn. Farðu vel með þig. Bestu kveðjur,
    Anna Sigga

  2. afi says:

    Gleðilegt sumar.
    Nú liggur leiðin bara niðrá við. Brekkan að baki. Hafðu það ætíð sem best.

Skildu eftir svar