Myndirnar úr Mallorcaferðinni.

Þá er helgin að baki. Sigurrós mín kom austur í gær. Ég var ekkert farin að hitta hana eftir að ég kom heim. Hún hjálpaði mér að setja inn myndirnar af Digital vélinni en ég hafði gert einhverja gloríu í tilraunum mínum svo ég fann ekki myndirnar þegar ég var búin að hlaða þeim inn í tölvuna.  Ég á nú eftir að skrifa textann við þær, geri það bara seinna. Ég á greinilega eftir að læra betur á myndavélina mína því ég hef þurft að henda fullt af myndum en það gerir nú svo sem ekki til þegar enginn kostnaður er við þetta. Ég var nú nokkuð fúl að koma þessu ekki sjálf inn því ég hafði áður gert þetta upp á eigin spýtur.  Annars verð ég nú að viðurkenna það að gamaldags myndirnar hans Hauks eru miklu betri og kannski fæ ég Sigurrós seinna til þess að skanna nokkrar þeirra inn.


Ég heyrði nokkuð sérstakt viðhorf hjá góðum hjónum sem við kynntumst og vorum svolítið með í ferðinni. Þau sögðust hætt að hafa með sér myndavélar í ferðalögum sínum því þau væru orðin svo gömul (bæði á sjötugsaldri). Ég bara hváði, því það er svo gaman að endurupplifa ferðir með því að skoða myndirnar úr þeim. Jú, þau sögðu að eftir þeirra dag myndi enginn nenna að skoða þessar myndir því erfingjarnir myndu ekkert þekkja fólkið á myndunum.   – Athyglisvert –


Sunnudagskaffi.


Ég myndaðist nú við að baka tvær kökur í gær til að hafa með kaffinu en Haukur dreif sig í að slá.  Það var orðin ansi loðin lóðin hjá okkur. Ég kallaði svo á Guðbjörgu, Magnús og krakkana í kaffi.  Oddur Vilberg fékk svo að verða eftir hérna hjá okkur Sigurrós og Hauki og var nú hvílíkt alsæll með það að fá að hjálpa afa að stússast úti á lóðinni. Sigurrós fór svo heim fyrir kvöldmat til þess að borða með Jóa sínum sem komst ekki með í gær. Við ákváðum svo að koma fljótlega saman öll og grilla á pallinum þegar fer að hlýna aðeins meira svo það sé hægt að borða úti. Það er svo skemmtilegt.


Meira verður þetta nú ekki að sinni. Ég bæti kannski við ferðasöguna á morgun.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Myndirnar úr Mallorcaferðinni.

  1. afi says:

    Hvaða bráðlæti er þetta Ragna mín, bara töðugjöldin strax? Ekki ertu búin að hirða líka?

Skildu eftir svar