Bankakerfið o.fl.

Ég, sem var tilbúin að taka á móti þessum fallega nýja degi byrjaði nú á því að verða öskureið þegar ég skoðaði póstinn í morgun. Þar var bréf frá KB banka þar sem mér var hótað lögfræðingi vegna ógreidds reiknings. Bíddu nú við, ég er með þjónustufulltrúa í Landsbankanum til þess að greiða alla mína reikninga svo ekkert liggi ógreitt t.d. þegar ég fer í burtu. Ég hef nefnilega alla tíð haft það viðhorf að reikninga eigi að greiða á réttum tíma. Þetta kom mér því verulega á óvart og auðvitað varð ég reið og ákvað að fá skýringu á þessu. Jú, þetta reyndist vera reikningur frá Selfossveitum, skrýtið.  Þá var að hafa samband þangað, en tölvukerfið var í einhverri uppfærslu hjá þeim  í augnablikinu svo það var ekki hægt að sjá um hvað málið snerist.  Þá var næst að hafa samband við þjónustufulltrúinn minn. Hún, eftir athugun, sagði að Selfossveitur hefðu einhverra hluta vegna lokað fyrir greiðsluna – einkennilegt það, vildu þeir þá ekki fá greiðslur?-  Ég hringdi þá aftur í Selfossveitur og sagði þeim hvað þjónustufulltrúinn hefí sagt og þá var mér sagt að það væri ekki rétt, því Landsbankinn hefði lokað fyrir greiðslur. Þegar þarna var komið þá ákvað ég að draga mig í hlé og bað um að þessir tveir aðilar finndu sjálfir út hver gerði hverjum hvað. Ég veit ekki einu sinni hvernig þessir aðilar vinna sín á milli. Það er fáránlegt að vera milliliður og hringja á milli til að segja hvað þessi og hinn hafi sagt.  Nú einfaldlega ætla ég ekki að hugsa um þetta frekar. Finnst þetta bara ekki vera mitt mál.


Edda hringdi, í beinu framhaldi af rekistefnu minni og skildi ekki í að það var alltaf á tali hjá mér. Hún spurði hvort ég nennti ekki að skreppa yfir og fá mér tesopa með sér, það var vel þegið.  Guðbjörg hringdi svo meðan ég var þar og spurði hvort ég yrði heima í hádeginu því hún ætlaði að skreppa í matartímanum sínum.  Hún kom svo færandi hendi með glænýtt Salsabrauð sem við gæddum okkur á. 


Hver segir svo að þetta sé ekki góður dagur?


Nammi, namm matreiðslubók.


Guðbjörg færði mér alveg frábæra matreiðslubók sem heitir MUNNGÆLUR og er gefin út af starfsfólki Vallaskóla á Selfossi. Þetta eru uppáhaldsuppskriftirnar þeirra. Eini gallinn er sá að við lestur bókarinnar verður maður svo svangur að allt aðhald fer út í veður og vind.


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Bankakerfið o.fl.

  1. afi says:

    Óþolandi
    Það er óþolandi þegar samviskusamt fólk lendir í svona löguðu. Svo er saklausum tölvunum kennt um. afi fékk eitt sinn lögfræðihótun fyrir ógreydd sölulaun af íbúð, sem voru greydd á staðnum og og kvittun gefin. Það var ekki sagt afsakið , bara mistök??

Skildu eftir svar