Erna í heimsókn.

Ég skrifaði ekkert í gær því ég var með næturgest í gesta-/vinnuher-berginu mínu. Erna, systurdóttir mín kom heim frá Bornholm með ösku mömmu sinnar, en það á að vera kveðjuathöfn á næsta mánudag og þá verður kerið jarðsett í Fossvogskirkjugarðinum. Það hlýtur að hafa verið erfitt ferðalag að koma svona ein á milli landa í þessum erindagjörðum. En Erna er ein af þessum hetjum sem bara gera hlutina ef þörf krefur. Ekkert vol og ekkert víl.


Edda og Jón fóru í bæinn í gær og Erna kom svo með þeim austur. Við borðuðum svo öll saman í gærkvöldi og áttum notalegt kvöld.  Erna var svo hér í nótt og við fórum í smá bankastúss í morgun og síðan fórum við í hádegismat til Eddu upp í yndislega sumarbústaðinn þeirra í Vaðneslandi. Ég skrapp svo með Ernu í bæinn seinni partinn því hún ætlaði með Dandý hans Þórs vestur á Snæfellsnes í kvöld til að vera þar um helgina. Ég lét nú duga að skila Ernu í Grafarvoginn til Rutar og tók svo beint strik austur aftur.  Ég bara nennti ekki að fara að þvælast inn í bæ til að kíkja á útsölur eða fara í búðir þó ég hafi heyrt auglýsingar þar um alveg út í eitt alla leiðina í bæinn.  Ég veit ekki hvernig ég kem til með að líta út fyrir rest ef ég held áfram að nenna ekki í búðir. Mér finnst bara svo gott að vera laus við allt þetta borgaráreiti og þegar ég kíki í skápana mína þá sé ég að þeir eru fullir af ágætis fötum og hví skyldi maður endalaust vera að stressa sig á að bæta við það. En ég bara vona að það verði kippt í mig þegar ég fer að verða mér til skammar 🙂 Nú það er kannski ekki loku fyrir það skotið að ég falli fyrir einhverju þegar við Guðbjörg skreppum til Englands. Það er nefnilega svo skrítið að þegar maður er á ferðalögum erlendis þá finnst manni allt í einu að maður eigi ekki nokkur föt. 🙁


Það er yndislegt veður og vonandi verður helgin góð. Við settum niður eina Sírenu í gær og rifsberjatré svo ég geti í framtíðinni haldið áfram að búa til „ömmusultu“ sem er beðið um út á allt þegar Oddur og Karlotta koma í heimsókn.


Ég veit ekki hvort ég skrifa annað kvöld því hugsanlega förum við í Sælukot á morgun. Það bara kemur í ljós.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Erna í heimsókn.

  1. Jói says:

    Fyrsti orðabelgurinn
    Þá er þetta komið í gang hér líka. Þú lætur mig vita ef þú vilt breyta litum og letri.

  2. Anna Sigríður Hjaltadóttir says:

    Áfram svona Ragna mín!
    Hæ!
    Þið mæðgur skrifið svo lifandi texta að ég sé þetta allt saman fyrir mér, finnst bara að ég sé hjá ykkur! Bestu kveðjur annars til Jóns Inga, Eddu, Guðbjargar og þín. Anna Sigga

Skildu eftir svar