Heima er best.

Við skelltum okkur um hádegi í gær austur í Sælukot. Guðbjörg fór líka með krakkana. Við áttum yndislegan dag í góðu veðri. Ég dreif mig í að taka smá til í krakkakofanum því þar var orðið heldur ógeðslegt. Karlotta sagði reyndar að ég mætti alls ekki sópa allri moldinni út því þá væri ekkert til þess að elda matinn úr. Ég bætti úr því og útbjó svona hráefnishorn og mokaði sem sagt allri moldinni í smá stíu svo nú er bæði hægt að elda og baka. Annars er nú full þörf á að smíða nýjan kofa þessi er orðinn bæði fúinn og varla börnum bjóðandi. Við klipptum svo hekkið við bústaðinn og Guðbjörg hélt áfram að pússa vegg sem byrjað var að pússa en rétta efnið var ekki tiltækt til þess að bera á. Við grilluðum svo í gærkvöldi og hlustuðum svo á fuglana syngja fram eftir kvöldi.


Í morgun drifum við Haukur okkur síðan í fjallaferð. Við ákváðum að aka nýja hringinn í kringum Hekluna. Við fórum upp hjá Keldum. Á leiðinni ætlaði ég að sýna Hauki Stokkalækjargilið en fann ekki leiðina að því. Það gengur vonandi betur næst. Við fórum sem sagt hringinn í kringum Heklu í vestur og ég verð að segja að þessi hringur er vissulega þess virði að fara hann. Það er stórbrotið að sjá hvar nýjasta hraunið hefur skriðið fram svart og óhugnarlegt.


Við lokuðum svo hringnum aftur í Sælukoti. Guðbjörg var að bíða eftir Selmu og Jóa sem ætluðu að koma í heimsókn til hennar í dag og við héldum svo áfram heim á leið.  Oh, hvað það var gott að koma heim og fara í heitt bað, borða og fá sér gott kaffi eftir matinn. Það er komin rigning og rok svo það er kúrulegt að vera bara heima og hafa það huggulegt. Kannski „skröbblum“ við á eftir, svo er laugardagur og þá er Moggakrossgátan eftir líka. Jammi, jamm. Heyrumst síðar.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar