Dússý mín kvödd.

Maður er nú svona hálf tómur eftir þennan dag.  Við Haukur fórum í bæinn í gær og vorum í Hafnarfirðinum í nótt. Í morgun fór ég svo til hans Jakobs súper-sjúkraþjálfara sem ég hef ekki verið hjá síðan í haust.  Honum fannst ég í ótrúlega lélegu ástandi þrátt fyrir að hafa verið í sjukraþjálfun í allan vetur, vor og sumar.  Hann losaði vel alla liði í baki og upp í háls og mér líður strax mikið betur. Sú sem ég er hjá á Selfossi er nefnilega ekki í þessari liðlosun sem Jakob er svo góður í. Ég ætla að taka nokkra tíma hjá honum í sumar og sjá svo hvað ég geri. 


Eftir hádegið var svo komið að því að kveðja hana Dússý mína. Athöfnin í Bústaðakirkju var alveg yndisleg og við nánustu aðstandendurnir fórum svo í Fossvogskirkjugarðinn þar sem kerinu var komið fyrir við hlið Magnúsar heitins og Smári Sverrir hennar Rutar mokaði yfir. Nú hvíla þau saman eins og áður. 


Við hittum svo ættingja og vini í erfidrykkjunni á eftir.  Mér þótti mjög vænt um hvað það komu margar af þeim sem unnu með Dússý á Borgarspítalanum hérna á árunum áður til að kveðja hana. Þar á meðal var húh Sæunn sem ég þekkti í gamla daga þegar við unnum saman í skólagörðunum á sumrin.


Nú er ég komin heim á Selfoss aftur. Tveir frændur okkar sem voru í burtu í dag hringdu nokkru eftir að ég kom heim. Hún Tóta mín af Ásveginum hringdi líka áðan. Það er alltaf notalegt þegar fólk er að hugsa til manns.


Erna er að fara aftur heim í fyrramálið og Rut ásamt Kollu með synina sína tvo fara með sömu vél. Þær voru löngu búnar að kaupa miða til Bornholm á þessum tíma til að heimsækja mömmu, ömmu og langömmu. Þær ætla að fara þó erindið sé annað en upphaflega var ákveðið. Þetta verður erfitt fyrir þær en ég er fegin Ernu vegna að þær skuli ætla að vera í smátíma á Bornholm.


Ennþá finnst mér svo erfitt að átta mig á því að Dússý sé í raun farin. Það gæti verið vegna þess að þegar svona er þá er engin kistulagning sem er jú aðal kveðjuathöfnin. Það er bara kerið með öskunni sem kemur heim til greftrunar. Það tekur sjálfsagt smá tíma að átta sig á þessu til fulls en á morgun er nýr dagur og enn er komið að því að fletta á nýja blaðsíðu í sinni lífsins bók og geyma góðu minningarnar um þá sem hafa kvatt en snúa sér að þeim sem lifa.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar