Leiðinlegasta tíkin – pólitíkin.

Ég dreif mig auðvitað á kjörstað strax og ég var kominn á fætur í morgun. Ég hef nú haldið þeim sið að þegar um kosningar er að ræða þá byrja ég daginn á því að kjósa, líka þegar maður skilar auðu :)?


Ég leyni ekkert þeirri skoðun minni að forsetaembættið sé orðið allt of pólitískt. Mér er sama hvort sá pólitíkus er til hægri eða vinstri. Það á að vera ópólitískt með öllu. Ég sé ekki fyrir mér hvernig Alþingi á að starfa í framtíðinni ef sú pólitíska afstaða og hagsmunir sem forsetinn hefur á hverjum tíma verður til þess að kosið verði í tíma og ótíma  í þjóðaratkvæðagreiðslu. 
Mér finnst vitaskuld að þessi málskotsréttur forseta eigi að vera fyrir hendi en mér finnst þetta mál hins vegar alls ekki þess eðlis að það eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og sérstaklega ekki þegar forseti hefur eins mikil persónuleg tengsl við málið og er í þessu tilviki. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvað forseti hefði gert ef málið hefði snúið á hinn veginn, ef það væru hægri menn sem vildu eiga alla fjölmiðla á Íslandi og að það væri ekki fyrrum kosningastjóri og styrktaraðili forseta sem hlut ætti að máli. Ég þykist þess fullviss að þau lög hefðu hlotið samþykki forseta strax. Svona er nú þessi blessuð pólitík, leiðinlegasta tík sem fyrirfinnst.

En Þetta má í framtíðinni alls ekki fara í þann farveg að stjórnmálaskoðanir og hagsmunir þess forseta sem er við völd hverju sinni, ráði því hvaða mál teljist það mikilvæg að þjóðin þurfi að ganga til kosninga um þau.


Læt ég hér með algjörlega lokið tali mínu um pólitík sem ég hef svo sem ekkert vit á og ætti því ekkert að vera að tjá mig um. Það bara hellist stöku sinnum yfir mann einhver ákveðin skoðun á málefni sem ekki verður haggað og það er nú svo í þessu tilviki.  – PUNKTUR 


BYCO Á SELFOSSI


Þá erum við komin með BYCO hérna á Selfossi. Þetta er mjög fín búð og vel skipulögð. Við Guðbjörg og Magnús komumst að raun um það í dag. Nú vantar okkur eiginlega ekkert nema Rúmfatalagerinn sem ég er alveg hissa á að skuli ekki vera kominn með verslun hérna.
Þrátt fyrir að hafa fengið pylsur og kók í opnunarveislunni hjá BYCO þá komum við hérna heim í Sóltúnið í kaffi og kleinur. Í kvöld buðu Guðbjörg og Magnús mér síðan í grillmat sem Magnús grillaði á nýja grillinu þeirra. Nammi, namm frá A – Ö.


Rétt áður en ég fór í grillboðið þá hringdi Sigurrós úr Arnarsmáranum. Já þau voru búin að fá nýju íbúðina afhenta 

                    – TIL HAMINGJU SIGURRÓS OG JÓI –


Við hérna á Árborgarsvæðinu ætlum svo að koma stormandi á morgun vopnuð málningarrúllum og penslum af öllum stærðum og gerðum og ráðast til atlögu í Arnarsmárann, svo allt verði nú orðið fínt þegar hollensku gestirnir koma, að mig minnir 5. júlí.
Hvað verður nú þessi íbúð látin heita?  Kannski Bestaból á eftir Betrabóli.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Leiðinlegasta tíkin – pólitíkin.

  1. Innlit!
    Ég er sammála þér hvað forsetaembættið varðar, enda skilaði ég auðu líka (og Auður var í öðru sæti ;)! Frábært hvað salan og kaupin gengu vel hjá Sigurrós og Jóa, hitti hana rétt fyrir tíu í morgun er ég var að labba í síðasta messusönginn fyrir sumarfrí. Fer að huga að tíma til að sækja þig heim á Selfoss!!!! Kveðja.

Skildu eftir svar