Unga fólkið í heimsókn.

Við Haukur drifum okkur í góðan göngutúr í morgun og þegar við komum heim þá hringdi Sigurrós og var að spyrja um veðrið hérna því það var dimmt yfir og sólarlaust í Reykjavík. Það kom auðvitað í ljós að vitaskuld var sól í Sóltúninu og ég sagði þeim að drífa sig endilega með Hollendingana austur yfir fjall. Eftir að skoða fyrst Árbæjarsafnið þá komu þau austur því ég var búin að segja þeim að koma í gamaldags íslenskt kaffiboð. Ég hafði bakað pönnukökur og skonsur og var með flatkökur og kleinur. Mér fannst það vel við eigandi eftir ferðina á Árbæjarsafnið, enda sögðu Jeroen og Jolanda einmitt að þau hefðu séð svona (kleinurnar) á safninu. Þau fóru svo í bíltúr og skoðuðu m.a. Kerið og strandbæina meðan ég undirbjó grillmatinn sem upphaflega hafði verið ákveðið að þau kæmu í. Ég kallaði líka á Guðbjörgu og Magnús sem tóku þátt í teitinu hérna hjá okkur.
Við sátum svo hérna og spjölluðum til klukkan tíu.
Það lítur nú ekki sólarlega út fyrir morgundaginn því himininn er orðinn blýgrár en þau finna sér örugglega eitthvað skemmtilegt sem hægt er að gera í rigningu.


Haukur fór í bæinn í kvöld til að sækja Bjarna bróðir sinn og þeir leggja svo af stað austur á land í fyrramálið.


Ég hlakka til að byrja aftur í vatnsleikfiminni á morgun. Maður er allur að stirðna upp eftir þetta langa frí. Það er annars alveg frábært af henni Elísabetu sem þjálfar okkur að nenna að vera með okkur líka yfir sumarið.


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar