Borgarferð í blíðviðrinu.

Við ákváðum það í morgun að skreppa til höfuðborgarinnar eins og sveitafólkinu ber að gera öðru hvoru svona til að ryðga ekki í umferðarreglunum og til að sjá hvernig borgarfólkið er klætt. Ekki nennti ég samt að fara á neinar útsölur þó þær væru auglýstar í hundraðatali.


Haukur átti erindi í Hafnarfjörðinn til að slá þar lóðina og ýmislegt annað sem hann vildi að væri í lagi áður en hann fer austur á land í vikunni. 
Haukur vill alltaf hafa alla hluti í lagi það er bara hans „mottó“.


Við byrjuðum á því að koma við hjá Sigurrós og Jóa en þau áttu von á Hollandsgestunum í dag og við vissum að þau áttu eftir að hengja eitthvað upp á veggina svo við ákváðum að hjálpa aðeins með það. Það er alveg ótrúlegt að allt skuli vera komið í svo fint stand að það sé eins og þau hafi átt heima þarna í mörg ár en ekki fengið íbúðina afhenta fyrir rétt rúmri viku og átt þá eftir að mála allt og gera hreina og skila íbúðinni á Flókagötunni. Já það er ýmislegt hægt að gera þegar fjölskyldurnar sameinast um að hjálpa til og trúa því að hlutirnir gangi upp, sem þeir gerðu svo sannarlega í þetta skiptið. 


Haukur átti eftir að koma við hjá rakaranum sínum og ég rölti aðeins um miðbæinn í Hafnarfirði á meðan. Mikið er nú Hafnarfjörður fallegur bær. Við vorum að tala um það við Haukur að líklega væri þetta fallegasti bærinn á landinu. Tilbreytingin í landslaginu, hraunið og sjórinn allt gerir þetta bæinn svo sjarmerandi.


Við enduðum svo á því að fara í gamla hverfið mitt 104 en ég átti aðeins erindi í Rúmfatalagerinn og við rétt litum í dyrnar hjá Borghildi hans Hauks. Síðan lá leiðin í Gufuneskirkjugarðinn þar sem ég lagaði aðeins til í kringum leiðið hans Odds. Ég hef ætlað að fara þangað alveg síðan ég kom heim frá Mallorca en var ekki búin að láta verða af því. Mikið finnst mér einkennilegt þegar verið er að slá þar að það skuli ekki vera snyrt alveg upp að legsteininum og beðinu framanvið, maður verður alltaf að reita grasið upp sjálfur. Ekki það að maður sé of góður til þess, það er bara svo leiðinlegt þegar einhver tími líður og maður kemst ekki þá verður þetta svo ósnyrtilegt.


Nú erum við komin aftur í Sóltúnið og manni minn hvað það lítur út fyrir að verða gott veður á morgun, bara ekki skýhnoðri á himni.  Best að flýta sér í svefninn til að vakna snemma til enn eins fallega dagsins.  Hvað maður má nú vera þakklátur fyrir alla þessa sólardaga.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Borgarferð í blíðviðrinu.

  1. Magnús Már says:

    Fallegur bær?
    Vissulega er Hafnarfjörður mjög fallegur bær, en Akureyri er nú samt fallegri, eða þannig.

Skildu eftir svar