Palli var einn í heiminum :)

Þegar ég var komin á fætur á laugardagsmorguninn þá leið mér eins og þegar „Palli var einn í heiminum“. Það var enginn heima í allri lengjunni hérna og enginn í húsunum í kring, Haukur var á Borgarfirði eystri, Guðbjörg og Magnús voru norður á Akureyri, Sigurrós og Jói í Kópavoginum og það greip mig eitthvert eirðarleysi. Ég var nú ákveðin í að láta ekki þetta eirðarleysi ná föstum tökum á mér svo ég bara gerði eins og Palli í bókinni og ákvað að fara út og skoða heiminn. Ég lagði leið mína í Nóatún og viti menn þar iðaði bókstaflega allt af lífi, fólk af öllum þjóðernum að nesta sig upp fyrir áframhaldandi ferðalög og  heimamenn að kaupa viðbót í ísskápana sína.  Þarna voru strákar sem fóru um búðina og sungu. Ég þekkti nú ekki hverjir voru þar á ferð en það var gaman að fylgjast með þeim. Svo var verið að gefa ýmislegt að smakka og þar stóð uppúr Expressókaffið frá Kaffitári og fína súkkulaðisýrópið sem var sett út í. Nammi namm. Ég á núna svona veigar í skápnum mínum sem bíða þess að vera teknar fram á góðri stundu.
Þegar ég kom heim úr Nóatúnsferðinni var ég hvílíkt full af orku og allt eirðarleysi og depurð heyrði sögunni til. Ótrúlegt hvað það þarf lítið til. Ég skellti mér í að byrja að sauma (bútasaums)- gardínukappa fyrir gestaherbergið hjá Sigurrós og á meðan hlustaði ég á viðtöl við fólk í öllum landshlutum á RÁS 2. Þetta reyndist hinn besti dagur .


Á sunnudagseftirmiðdaginn var ég búin að bjóða Sigurrós og Jóa ásamt Jolöndu og Jeroen að koma í fiskisúpu hjá mér, sem fyrsta stoppi á leið þeirra um Suðurlandið. Það var mjög gaman að fá þau aftur í heimsókn. Þau fóru svo héðan eftir kvöldmat í Sælukot og lögðu síðan af stað þaðan snemma næsta morgun áleiðis að Skaftafelli og Jökulsárlóni.
Þegar þau voru farin þá dreif ég mig hinsvegar í bæinn og sótti Odd Vilberg til pabba síns og hann kúrði svo hjá ömmu um nóttina.


Á mánudaginn voru svo Guðbjörg og Karlotta komnar heim og við fórum öll í Sælukot og gistum þar eina nótt svona aðeins til að fá „fílinginn“ úr sveitinni. Ég hef aldrei séð svona marga fugla í kringum bústaðinn og núna þó alltaf sé þar mikið fuglalíf. Í dag koma Sigurrós & Co svo aftur í Sælukot og gista líklega til morguns.


Læt hér staðar numið í bili.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar