Skruppum í dagsferð.

Í göngutúrnum í morgun þá ákváðum við að skreppa í dagsferð eitthvað um suðurlandið eftir hádegið. Fyrst vorum við að spá í að fara í Haukadslsskóg en ákváðum svo að láta það bíða betri tíma og vorum svona að hugsa um að fara að Skógum. En það er nú svo með þessar óvissuferðir að maður veit aldrei hvar maður lendir.
Við fórum sem sagt ekki að Skógum heldur beygðum inn Fljótshlíðina og ókum hana inn fyrir Múlakot en snerum þá við og fengum okkur kaffi í Kaffi Langbrók í bakaleiðinni og héldum síðan inn á fjallveg sem liggur úr Fjótshlíðinni yfir á Rangárvelli vestan við Þríhyrning. Þetta er gömul Njáluslóð og víða merkingar. Þó fannst okkur tilfinnanlega vanta merkingu við heilmiklar húsatóftir sem við komum að á þessari leið. Það væri gaman að vita hvaða stóri bær hefur verið þarna. Þegar við vorum alveg að koma á veginn sem annars vegar liggur inn á Fjallabaksleið og hinsvegar áfram að Gunnarsholti þá forum við framhjá mjög fallegu sumarhúsalandi sem maður hafði bara ekki hugmynd um að væri þarna.


Fyrst við vorum nú komin á Rangárvellina þá var ekki úr vegi að kíkja í Sælukot og gá hvort einhver væri þar.  Það var greinilegt að einhver var með bústaðinn því það hékk þvottur úti á snúru og öll ummerki um að húsráðendur hefðu bara brugðið sér bæjarleið svo við fórum ekkert inn þar. Hinsvegar ákváðum við að aka áfram upp Rangárvellina og yfir í Landsveit og þaðan lá leiðin yfir í Þjórsárdal hjá Sultartangavirkjun. Við skoðuðum nú ekki virkjunina í þetta sinn því við gerðum því góð skil í ferðinni með Steinasafnaraklúbbnum í fyrra.  Við fórum nú enga króka í Þjórsárdalnum heldur ókum beina leið að Árnesi og kíktum á staðinn svona til að sjá við hverju má búast ef maður drífur sig á harmonikumót þar um helgina.  Það var komið svo nálægt kvöldmat að við fengum okkur hamborgara og franskar að góðum íslenskum ferðasið og komum svo hérna heim rétt um sjöleytið til að horfa á fréttir og veður. Það má auðvitað ekki missa sig 🙂


Haukur fór svo út á videoleigu sem við gerum annars nánast aldrei og tók mynd með Jackie Chan „The Medallion“  Jackie Chan alltaf kankvís og góður.


Nú er klukkan bara nákvæmlega tólf á miðnætti svo það passar að setja punktinn hér eftir þennan góða dag.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Skruppum í dagsferð.

  1. Sigurrós says:

    Þetta hefur aldeilis verið fín ferð hjá ykkur 🙂 Og mikið er ég ánægð með hvað þú ert orðin öflug með myndavélina! Aldrei hefði ég getað trúað því að móðir mín ætti eftir að taka myndir út um glugga á bíl! 😉

Skildu eftir svar