Mikið að gerast.

Þá eru ekki nema tveir klukkutímar þar til verzlunarmannahelginni lýkur. Hún hefur nú ekki verið í hefðbundnum stíl hérna hjá okkur Selfossbúunum en samt afrekuðum við gömlu brýnin að komast aðeins í snertingu við útihátíðarstemninguna því við fórum á laugardaginn á hátíð Félags harmonikkuunnenda sem haldin var í Árnesi.  Við áttum pantað í bændagistingu en þegar við komum á svæðið um hádegi á laugardag var komin mikil tjaldborg á tjaldstæðið. Það má reyndar frekar segja að þar hafi verið risin skuldahalaborg því venjuleg tjöld var þar engin að sjá heldur borg fellihýsa, tjaldvagna og húsbíla. Ég sagði nú við Hauk að það væri eins gott að við hefðum ekki mætt á svæðið með gamla fimm manna tjaldið hans með tjaldhimninum.  Við hefðum verið eins og viðundur því slíkt bara sést ekki lengur. Já svona er nú Ísland í dag. 


Veðrið var gott á laugardeginum og nokkrir voru útivið að spila á nikkur, syngja og dansa en aðrir voru á tónleikum í félagsheimilinu. Við fórum þangað og náðum svona seinni hlutanum af tónleikunum. Hlustuðum á Braga Hlíðberg og fleiri góða spilara.  Síðan röltum við um svæðið og komum okkur svo fyrir í gistingunni. Um kvöldið var boðið upp á hlaðborð í félagsheimilinu sem okkur fannst tilvalið að nýta okkur. Þetta var hátíðamatur, lambasteik, svínasteik og purusteik ásamt öllu tilheyrandi. Okkur fannst þetta ótrúlega fínn matur sem kostaði ekki nema 1.500 krónur á manninn. Við hefðum sjálfsagt þurft að borga nálægt þúsundkalli á mann fyrir hamborgara í sjoppunni ef við hefðum farið þangað. Eftir borðhaldið byrjaði svo ballið og var dansað, þ.e.a.s. við dönsuðum til klukkan að verða tvö, ballið stóð hinsvegar eitthvað lengur. Alltaf gott að láta sig hverfa þegar gleðin stendur enn sem hæst.
Um morguninn þegar við vöknuðum var hellirigning svo við ákváðum bara að skella okkur heim í morgunmat.
Guðbjörg hringdi og sagði að þau væru búin að fá afhent nýja húsið og væru að byrja að mála. Við skófluðum í okkur restinni af morgunmatnum. Ég snaraðist í að baka fullan disk af skonsum og búa til túnfisksalat og svo drifum við okkur með afraksturinn í Grundartjörnina.


Ég get alveg skilið að þau hafi fallið fyrir þessu húsi því það er fallegt og mjög vel skipulagt og mér fannst strax góður andi í því þegar ég kom inn.  það er nefnilega svo með hús að það er misgott að koma inn í þau. Sólin var líka komin fram úr skýjunum og það var allt svo skínandi bjart.


Þar var allt komið á fullt að mála og Sigurrós og Jói voru komin austur til að hjálpa. Haukur dreif sig strax í að taka nagla úr veggjum og sparsla en ég var svona eitthvað að gaufast. Sinna krökkunum og sjá um kaffi og þessháttar. Ég fór svo heim upp úr miðjum degi og eldaði handa verkamönnunum sem fannst fínt að fá eitthvað gott í gogginn eftir amstur dagsins. Siggi sótti Karlottu sem fer með honum í ferðalag eftir helgina svo hún verður ekki heima fyrr en um næstu helgi.


Í morgun var veðrið ennþá mjög gott og við Haukur drifum okkur út að hjóla þegar við vöknuðum. Það var svo rólegt yfir öllu og engin umferð. Það var hressandi að viðra sig aðeins áður en inniveran tæki við.
Málningarvinnan í Grundartjörninni hélt svo áfram í dag, en við Haukur vorum í því að setja saman skápa í barnaherbergin. Sigurrós og Jói komu ekki aftur austur í dag því þau voru að fara í sextugsafmælið hans Tedda, stúpa Jóa. Nú var hinsvegar kominn nýr liðsauki sem flaug gagngert frá Akureyri til að mæta í hjálparstarfið.  Ekki var þessi liðsauki af verri endanum og kunni greinilega vel til verka. Þarna var sem sé kominn  Magnús, pabbi Magnúsar Más, greinilegt að hann hefur einhverntíman áður meðhöndlað pensil og rúllu.


Við borðuðum svo öll saman hérna í Sóltúninu hjá mér í kvöld og Birkir bróðir Magnúsar var kominn í hópinn. Jóa hans Hauks og Haukur hennar áttu svo stuttan stans hjá okkur í kvöld.

Litli stubburinn fékk að vera áfram eftir kvöldmatinn og var búinn að fara í bað hjá ömmu og fá lesna fyrir sig heila bók þegar hann var sóttur áðan.  Nú er líka best að amma og afi fari að koma sér í rólegheit því það er spennandi dagur framundan á morgun.


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar