Nýtt heimili /Grillveisla.

Við vorum að koma heim úr frábærri grillveislu sem Magnús pabbi Magnúsar Más hélt.  Tilefnið var að nú eru Guðbjörg, Magnús Már og börnin flutt yfir í nýja húsið þeirra í Grundartjörninnni. Málningarvinnu var lokið og flutningurinn fór fram í gær. Það var mætt gott lið vaskra manna til að hjálpa til við flutninginn svo við, sem einu sinni gátum allt, leyfðum þessum fílsterku ungu mönnum að sýna hvað í þeim bjó og vorum ekkert að reyna að skyggja á þá enda borin von að það hefði borið árangur. Við áttum bara fullt í fangi með að vera ekki fyrir þegar þeir geystust um. Guðbjörg var hinsvegar í að stjórna. Er það ekki svo að það þurfi alltaf konur til að hafa hemil á flutningamönnum? Í þau skipti sem ég hef flutt þá hefur mér fundist það nauðsynlegt því krafturinn í karlmönnunum er svo mikill að þeir eru kannski ekki alltaf að hugsa um smáatriðin eins og að passa sig að reka ekki eitthvað utaní og setja teppi á milli svo ekkert rispist og þess háttar. Það verður einhvern veginn alltaf að vera okkar verk að passa upp á þessi atriði. Eða er ég ekki að fara með rétt mál?


Veislan í kvöld var mjög skemmtileg og lambahryggsneiðarnar sem Magnús eldri var búinn að hafa í marineringu síðan í gærkvöldi runnu lúflega niður eftir grillmeðferð sonarins og með góðu rauðvíni.
Ekki spilltu svo allar skemmtilegu sögurnar og upprifjun á vísum og annar fróðleikur sem þeir feðgar allir, (Birkir bróðir Magnúsar Más var líka mættur) eru hafsjór af.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Nýtt heimili /Grillveisla.

  1. Sigrún says:

    Þú ferð svo sannarlega með rétt mál, við þurfum að hafa hemil á karlpeningnum hvað varðar flutninga ef við viljum að hlutirnir séu eins og þeir voru!

Skildu eftir svar