Reykjavík,Kópavogur,Reykjavík,Hafnarfjörður, Keflavík,Kópavogur,Selfoss

Já ég hef sveiflast milli sveitarfélaga í  góða veðrinu í dag.
Við lögðum upp snemma í morgun. Ég til að mæta í klippingu og snurfus hjá hárgreiðslukonunni minni í Reykjavík en Haukur til að taka sig til í Hafnarfirðinum, fara í klippingu og ganga frá ýmsu fyrir Danmerkurferðina.


Þegar ég var orðin fín um hárið þá skrapp ég til að hitta Sigurrós og hitti hana við Sundlaugina Kópavoginum en hún hafði labbað þangað um morguninn og var akkúrat búin í sundinu þegar ég kom úr klippingunni. Við komum aðeins við í Hamraborginni og fengum okkur m.a. hamborgara, mjög góðan, í litlu veitingahúsi þar. Síðan fórum við heim í Arnarsmára til Sigurrósar. Okkur datt svo í hug að skreppa aðeins niður á Laugaveg. Við fengum stæði fyrir utan Tískuval svo við litum aðeins inn til að skoða nýju búðina. Við vorum svo heppnar að Ingunn var einmitt að koma út svo hún fór aftur með okkur inn og sýndi okkur um allt.
Við áttum nú stuttan stans í borginni því ég þurfti að vera komin til Hafnarfjarðar að sækja Hauk klukkan þrjú og aka með hann til Keflavíkur í flugið.

Sigurrós hringdi svo til mín og bauð mér í grill þegar ég kæmi aftur úr Keflavíkinni og áður en ég færi austur. Ég þáði það með þökkum og fékk þessa dýrindis grillmáltíð sem Jói grillaði þegar hann kom heim úr vinnunni og við borðuðum úti á svölum í góða veðrinu.


Nú er ég svo komin aftur heim í Sóltúnið. Hitinn í íbúðinni er svakalegur 30° á mæli hérna inni í stofu. Ég vildi óska að ég hefði munað eftir að draga fyrir gluggana áður en ég fór í morgun, en „maður tryggir víst ekki eftirá“ eins og þeir segja í auglýsingunni. Ætli það endi ekki með því að það verði að setja kælingu í húsin á Íslandi ef svo fer sem horfir hvað hitann varðar þessa dagana


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Reykjavík,Kópavogur,Reykjavík,Hafnarfjörður, Keflavík,Kópavogur,Selfoss

  1. afi says:

    Góða ferð til danaveldis. Reynið þið að hafa það soltið notalegt.

  2. Nafnlaust says:

    Takk fyrir kveðjuna afi. Ég ætla ekki að yfirgefa góða veðrið á Íslandi í þetta skiptið, en Haukur ætlar að dvelja í Danaveldi hjá dóttur sinni og fjölskyldu.

Skildu eftir svar