Fáránlegar framkvæmdir í góða veðrinu.

Eins og öllum hér á Fróni er kunnugt þá hélt hitabylgjan áfram í gær. Við Haukur hugsuðum okkur gott til glóðarinnar og bjuggumst til að búa um okkur á pallinum og njóta þar góða veðursins og rósanna. Ekki fór þó svo að það gengi eftir fyrr en um kvöldmatarleytið.
Það hafa staðið yfir framkvæmdir á göngustígnum við garðinn okkar í allt sumar og það ekki neinar smáframkvæmdir. Það er verið að steypa brunn og í hann eiga að tengjast einhver frárennslisrör. Maður hefur nú ekki séð  mikið hvað er að gerast þarna því þetta er langt niðri í jörðinni. Framkvæmdir voru nú búnar að liggja niðri talsvert lengi en undanfarið hefur einn maður verið að gera uppslátt fyrir einhverskonar brunnhúsi þarna niðrí. Nú þegar góða veðrið byrjaði brá hinsvegar svo við að komin voru mannhæðarhá steinrör hérna á bakvið. Kannski allt gott um það að segja því nú ætti líklega ekkert annað eftir að gera en hala þessum rörum niður í gryfjuna. En, þetta varð ekki alveg þannig. Það átti nefnilega eftir að saga þessi steinrör og snyrta til svo þau myndu passa þegar þau væru komin niður í gryfjuna. – Nú töldu þeir sem verkinu stjórna að heppilegt veður væri til að snyrta þau til.
Í fyrradag og í allan gærdag var verið að saga og steinrykið var svo mikið að vitaskuld var ekki hægt að vera utandyra og allir gluggar og dyr urðu að vera lokuð en samt finn ég lyktina af steinrykinu ennþá hérna í íbúðinni.


Við sáum að hér heima gætum við ekki verið  svo við notuðum daginn til göngu og hjólaferða svona til að njóta góða veðursins. Við hjóluðum m.a. út í Grundartjörn.  Þar var Magnús Már að snyrta hekkið sem var orðið allt of hátt en Guðbjörg og Karlotta voru að mála dúkkuhúsið sem fylgdi með á lóðinni. Ömmustubburinn var ekki heima því nú er leikskólinn byrjaður. Við stoppuðum hjá þeim góða stund en vildum ekki tefja þau allt of mikið svo þar kom að við héldum hjólatúrnum áfram.
Þegar við komum heim voru steinsagararnir sem betur fer farnir svo við ákváðum að kalla á Grundartjarnarbúana í grill svona til að kveðja Hauk sem var að fara í hálfsmánaðarheimsókn til Danaveldis. Þetta var mjög notalegt og fínt. Það er alltaf svo gaman að grilla og borða úti í góðum félagsskap.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar