Kennaraverkfallið o.fl.

Mikið gengur nú annars á í þjóðfélaginu um þessar mundir.
Ekki er séð fyrir endann á kennaraverkfallinu, svo er það skandallinn hjá Olíufélögunum og íslendingar lenda í sprengjuárás, svo nokkur af stærstu atriðunum séu nefnd. Er það nokkur furða að landið sjálft fari að bylta sér eins og nú á sér stað í Grímsvötnum. Nei, mér finnst það hreint ekkert skrítið.


Það er auðvitað að bera í bakkafullan lækinn að tala um kennaraverkfallið enn og aftur en ég verð nú bara að segja að mitt álit er það, að kennarar eigi ekki að samþykkja þessa fáránlegu miðlunartillögu, skárra sé þó af tvennu illu að láta setja lög á sig því ef þeir samykkja þá finnst mér þeir gera lítið úr sér.


Það sem ég hef heyrt um miðlunartillöguna þá lækka flestir í launum nema þeir sem eru allra elstir, og dugar þó ekki alltaf til.


Annars er nú svo ótrúlega margt sem maður bara skilur alls ekki í þessum kennarasamningum og margt af því er búið að vera inni í samningum lengi. Mig langar til þess að taka hérna eitt smá sýnishorn. 


Starfsreynsla er einskis metin. Það er bara aldurinn sem skiptir máli. Ef við búum okkur til dæmi (þau eru reyndar til mjög mörg) þar sem á sama tíma útskrifist úr KHÍ tveir nemendur, annar sem er 25 ára og hinn, sem við gefum okkur að sé 45 ára,  þá fer ungi nemandinn alveg á lægstu laun vegna þess að hann er svo ungur að árum en eldri nemandinn sem rétt náði prófum  fær tugum þúsunda hærri byrjunarlaun – af hverju? Jú af því hann er mun eldri að árum. Ef við hugsumm okkur svo að þessi 45 ára nýútskrifaði nemandi, sem aldrei hefur komið nálægt kennslu, komi inn í skóla til starfa og starfi þar við hliðina á kennara sem útskrifaðist á sínum tíma 25 ára, en er nú búinn að kenna 15 ár, þá fer nýútskrifaði 45 ára reynslulausi kennarinn á hærri laun en sá sem hefur starfað í 15 ár. Af hverju? Jú það er einfalt, starfsreynsla er einskis metin og hann er 5 árum eldri en sá með reynsluna.  Ég verð bara að segja að svona nokkuð held ég þekkist ekki í nokkurri annarri starfsgrein.
Þetta er nú bara eitt dæmi í þessum fáránleika öllum.


Svo má ég til með að koma því að, af því við erum nú alltaf að miða okkur við önnur lönd, að við ættum að hugleiða af mikilli alvöru hvernig Danir sleppa við að vera með kennara í verkföllum. Jú, þeir jafna laun þeirra árlega við aðrar starfsstéttir og sjá þannig til þess að þeir dragist ekki aftur úr eins og kennarar hér hafa gert árum saman.
Það er alla vega langur vegur síðan kennarar hér fengu laun sambærileg við það sem þingmenn fá.  Bíddu nú við, kannski á það sína skýringu. Hún skyldi þó ekki vera sú að á þeim tíma voru það aðallega karlmenn sem voru kennarar???

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Kennaraverkfallið o.fl.

  1. ingunn says:

    eða kannski að einu sinni ákvað kjaradómur laun kennara einsog hann gerir nú fyrir þingmenn…

    bara hugmynd:)

Skildu eftir svar