Hugleiðing í ársbyrjun.

Þá eru nú jólin liðin og nýtt ár gengið í garð.


Þegar ég lít yfir árið sem ég var að kveðja þá sé ég enn betur hvað ég er lánsöm og hvað ég hef haft það gott.  Það er yndislegt að eiga góða fjölskyldu sem alltaf keppist við að láta mér líða vel og góða vini. Ég er líka þakklát fyrir góðar kveðjur um hátíðirnar og eina heimsókn fékk ég á aðfangadag sem ég átti ekki orð yfir. Veðrið var leiðinlegt á aðfangadagsmorgun svona hríðarhraglandi. Ég var nýbúin að horfa í átt til Hellisheiðar þar sem var greinilega snjókoma því ekkert sást nema hvítt kóf og ég var að hugsa hvað það væri nú gott að Sigurrós og Jói væru komin austur. Þá hringdi dyrabjallan og ég bjóst við að þetta væri systir mín en viti menn, úti stóð Viðar Már Matthíasson, sem ég vann fyrir á málflutningsskrifstofunni öll árin , en hann var kominn gagngert austur yfir fjall til að óska mér gleðilegra jóla og færa mér Púrtvínsflösku. Ég bara varð orðlaus.  Hann kom reyndar öll jólin sem ég vann fyrir hann og á meðan ég bjó í Reykjavík og færði mér konfektkassa. Krakkarnir hans komu alltaf með í jólasveinabúningum en þar sem þau eru öll löngu vaxin upp úr búningunum sínum, ein dóttirin kominí læknisfræði og önnur í lögfræði þá kom hann einn austur. Ef þetta er ekki trygglyndi þá veit ég ekki hvað það orð merkir.  Ég hef líka verið að fá upphringingar frá góðu fólki og að ég nú tali ekki um allar góðu kveðjurnar og fallegu kortin sem hafa komið í gegnum netið og með póstinum. Þakka ykkur öllum sem hafið átt þátt í að gleðja mig. Það hlýjar manni um hjartaræturnar að vita að maður á góða fjölskyldu og góða vini. Ekki vildi ég skipta á því og öllum heimsins auði.


Ég hafði hugsað mér að skrifa meira um hátíðahaldið hjá okkur en ætla ekki að bæta við þetta í dag heldur hugsa um það áfram hvað ég er lánsöm og hvað ég á góða að.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Hugleiðing í ársbyrjun.

  1. afi says:

    Óska þér innilega gleðilegs árs.
    Óska þess einnig að þú verðir áfram umvafin góðum og tryggum vinum.
    Eins og þú segir sjálf, gott er að eiga góða að. Það er enginn einn sem á trausta vini.

Skildu eftir svar