Aukakílóin og síðasta TROMPIÐ.

Þá eru nú páskarnir liðnir og ekkert annað að gera en að reyna að vinna sig út úr afleiðingunum. Já, það var ekki nóg með að ég bakaði sjálf fyrir páskana, heldur var líka afmæli og fínerí hjá Guðbjörgu og svo er það jú óhófið í matnum sjálfum. Allt kemur þetta niður á vigtinni svo nú er ekkert annað að gera en að skella sér beint í grænmetið og hafragrautinn. Það ætti nú að vera auðveldara fyrir mig næstu daga því Haukur er farinn í vinnusyrpu. Því er nefnilega ekki að neita, þar sem ég er ekki of sterk á svellinu þegar góðgætið er fyrir framan mig, að hann hann Haukur minn freistar mín alltaf talsvert með sætabrauði og svoleiðis. Ég verð sem sé á næstu dögum að ná af mér þessum rúmum tveimur kílóum sem bætast við á stórhátíðum svo þau festist ekki varanlega.

Trompið.

Ég átti eitt tromp eftir í leit minni að betri heilsu. Þetta tromp er Jóna Ágústa homopati. Hún hjálpaði mér oft á meðan ég bjó í bænum, m.a. eitt sinn þegar ég fékk sár á augað og það varð allt blóðhlaupið. Í það skiptið var ég búin að vera með dropa sem ekkert gerðu en hún lét mig hinsvegar fá örfáar pínulitlar pillur og sagði að ég myndi sjá mun innan sólarhrings. Viti menn, það gekk eftir og næsta dag var augað orðið eðlilegt.

Eftir allt gagnslausa lyfjaátið undanfarið í þessu endalausa raddleysi mínu og vesaldómi, sem nú um helgina hefur staðið í tæpar 6 vikur, þá ákvað ég að fá tíma hjá henni og sjá hvað hún gæti gert. Aftur fékk ég litlar pillur með mér heim svo nú er bara að sjá hvort ég verð ekki komin með röddina um helgina. Ég gef nú skýrslu síðar um það.

Ég fór sem sagt í Reykjavíkurferð í morgun og þar sem ég var nú komin í Borgartúnið þá mátti ég til með að kíkja á Ásveginn til hennar Tótu, gömlu nágrannakonunnar minnar svona í leiðinni austur aftur. Hún er alltaf jafn hress (allavega að sjá), en hún verður 90 ára í vor. Það er alltaf svo gaman að koma á bernskuslóðirnar og rifja upp ýmislegt sem á dagana dreif þegar við krakkarnir (ég og hennar börn) vorum að alast upp saman í Kleppsholtinu. Hún saknar þess mikið að gömlu nágrannarnir eru nú allir horfnir, all flestir yfir móðuna miklu og svo flutti ég á Selfoss, sem er nú eiginlega ófyrirgefanlegt en hún Tóta mín hefur nú samt fyrirgefið mér það og ég reyni að bæta fyrir með því að kíkja til hennar þegar ég er í bænum.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar