Skólahátíð og óskipulögð uppákoma.

Mikil forréttindi eru það nú að fá svona mörg tækifæri til þess að fá að taka þátt í því sem barnabörnin eru að gera. Í gær var vorhátíð, sem Karlotta bauð ömmu að koma á í skólanum sínum, Sunnulækjarskóla. Það var gaman að vera við dagskrána, sem börnin sáu um sjálf og að sjá ýmis verkefni sem voru til sýnis. Hér er Karlotta að sýna ömmu ýmislegt á bókasafninu.

Selma og Sólrún María voru þarna líka og Karlotta þurfti nú heldur betur hlaupa til þeirra til að fá að knúsa litlu frænkuna sína.

Augun mín og augun þín. Ekki gátum við nú fundið augu Karlottu í þessari seríu.

Ég var svo óheppin þegar það var farið út að grilla og ég ætlaði að fara að taka myndir í góða veðrinu, að ég gat ekki kveikt á myndavélinni hvernig sem ég reyndi. Þegar ég kom heim þá kom hinsvegar í ljós að batteríið var búið. Það hefur alltaf gefið merki um að það sé orðið lélegt en ekki núna.
Ég var nú sérstaklega skúffuð því það var talsverð uppákoma – sem ekki var skipulögð – á leikskólalóðinni. Þannig er í þessum nýja flotta skóla, að á leikvellinum er forláta klifurgrind sjálfsagt hönnuð af færustu arkitektum eins og annað í þessum nýja skóla. Grindin er mjög há og þrjár spírur koma efst á henni og á miðjuna á hverri spíru er plata sem stendur talsvert mikið út af því hún festist aðeins við miðja spíruna. Þetta er auðvitað mjög flott að sjá og sjálfsagt aðeins verið hugsað þannig, en öryggi barnanna virðist alveg hafa gleymst í þessari hönnun. Einhver ofurhuginn í nemendahópnum (6-8 ára) hafði sem sé klifrað upp grindina og einhvernveginn komist upp á efstu plötuna og var þar með kominn í sjálfheldu. Húsvörður skólans klifraði upp en það var vonlaust að hann gæti náð drengnum niður af plötunni, en hann vék þó ekki frá honum á meðan beðið var eftir hjálp heldur stóð og hélt í hendina á honum. Það sem gerðist næst var að lögreglubíll kom og tveir vaskir þjónar laganna komu að og góndu bara upp eftir grindinni en þeir gátu ekkert aðhafst frekar. Eftir nokkra stund kom síðan slökkviliðið á vettvang og brunaverðir í fullum skrúða reistu upp stiga og náðu þannig loksins að bjarga drengnum sem lá í hnipri ofan á plötunni alveg stjarfur af hræðslu. Ég frétti svo að húsvörðurinn hefði farið beint inn í skólann, sótt sög og sagað allar plöturnar af. Mér finnst frábært að skólastjórnendur hafi tekið þá ákvörðun og framkvæmt hana strax. Það væri hinsvegar fróðlegt að vera fluga á vegg þegar arkitektarnir frétta að búið sé að skemma listaverkið þeirra.
Þetta var nú það sem mér fannst ergilegast að ná ekki myndum af.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Skólahátíð og óskipulögð uppákoma.

  1. Sigurrós says:

    Þessir arkitektar!
    Það er alveg magnað að þessir arkitektar fái alltaf að hafa hlutina eftir eigin höfði burtséð frá þörfum þeirra sem þeir vinna fyrir. Þeir gleyma alltaf að gera ráð fyrir því að það þarf að nota blessuðu listaverkin þeirra, þau eru ekki bara til að horfa á og dást að!

Skildu eftir svar