Íslenskt mál, ungdómurinn og foreldrarnir.

Hvað verður um ástkæra ylhýra málið okkar í framtíðinni og hvað verður um blessaða unglingana okkar?
Hver ber ábyrgðina á því hvert stefnir?

Ég datt niður á heimasíðu ungrar íslenskrar snótar sem er nokkuð dugleg að færa dagbók á netinu en ég verð að játa að mér brá þegar ég sá hvernig hún fer með íslenskuna. Ég tek það fram að ég er ekki nokkur sérfræðingur- ekki einu sinni fræðingur heldur bara svona amma af gamla skólanum.

Af því að ég nefni nú hvorki nafn stúlkunnar né er með tilvísun á vefsíðuna hennar þá leyfði ég mér að afrita eina færslu sem ég þurfti að lesa tvisvar, til þess að átta mig á því hver merkingin var, en færslan hljóðar þannig:

"febrúar 2005 – 20:01
Hallo hvað seigiði gott ég var að koma að Akureyri og ég var að köppa ösgdasfötin mín og ég ætla að vera einhver prinsipissa eða það kalla ég það mér finnst skemtilegasta við að vera á ösgudagin er að maður fær nami og maður skemtir sér líka mikið eða það finnst mér hvað með ykkur ef þið viljið seiga mér eihvað skrifið þá í gestó endilega mér finnst svo gaman ef einhver skrifar í gestabókina mína við spjolum saman ef þið viljið þá endilega skrifa í gestó ég skrifa ekki meira í billi takk og bæ munið eftir gestó og ég er að fara að horfa á strákana bless !!!!!!!"

Það sem mér kemur fyrst í hug er hvort foreldrar skoði ekki það sem börnin þeirra eru að gera og leiðbeini þeim svo að allt geti verið sem best úr garði gert.
Mín skoðun er sú að foreldrar eigi að vita hvað börn á grunnskólaaldri eru að fást við, ekki síst í tölvunum sínum, hæla þeim fyrir það sem vel er gert og leiðbeina þeim með það sem miður fer. Það er hægt að gera það á jákvæðan hátt. Það á ekki að þurfa að vera neikvætt fyrir barn að fá tilsögn heima. Ég held að margir foreldrar í dag (nú er þetta bara mín tilfinning) hafi ekki hugmynd um hvað börnin þeirra eru að gera og finnist jafnvel að þau þurfi ekkert frekar að skipta sér af því, eða hafa áhyggjur og er þá sama hvort um nám er að ræða eða flakk á netinu, svo eitthvað sé nefnt. Skólinn hljóti að sjá um slíkt og ef eitthvað fer úrskeiðis þá er það vitaskuld skólanum að kenna. "Er það ekki skólinn sem á að ala upp börnin okkar og kenna þeim? Til hvers annars er þessi skóli?"
Mér finnst svo sorglegt þegar ég heyri svona viðhorf af því að auðvitað eiga öll börn að fá ákveðna umhyggju heima fyrir. Ég á líka erfitt með að skilja þá skoðun, að maður drepi niður áhuga barna sinna og geri þau óörugg ef maður segi þeim til eða leiðrétti það sem þau gera rangt.
Ég vona að mínar dætur hafi ekki haft neitt illt af afskiptasemi mömmu og leiðréttingum, en mér fannst það auka áhuga þeirra að vilja hafa það sem þær voru að gera sem réttast.
Aðeins yfir í annað, sem viðkemur unglingunum.
Í sambandi við það að foreldrum beri að fylgjast með börnum sínum, þá langar mig til þess að segja frá atviki sem kom mér á óvart fyrir nærri 20 árum og ég gleymi ekki.
Eldri dóttir mín, sem þá var unglingur, var að koma heim um kvöld, úr félagsmiðstöðinni. Henni lá mikið á hjarta og sagðist vorkenna svo rosalega henni X, sem væri með henni í bekk, því mömmu hennar þætti örugglega ekkert vænt um hana.
Ég hváði.
"Jú, hún spyr aldrei hvert hún er að fara og hún má koma heim þegar henni sýnist"
Mér varð á að spyrja hvort þetta væri ekki einmitt það sem unglingarnir vildu.
"Nei, því þá er foreldrunum örugglega sama um börnin sín".
Ég varð mjög hugsandi yfir þessu svari og þó að svona langt sé liðið síðan þetta kvöld, þá kemur þetta oft upp í hugann þegar ég heyri um vandræði unglinga.
P.S.Ég vona að þið virðið það við mig að tölvan mín virðist hafa sjálfstæðan vilja á því hvar eigi að vera línubil og greinarskil, alla vega vill hún ekki hafa þau þar sem ég vil að þau séu. Ég er búin að geyma þennan texta í nokkra daga og reyna breytingar aftur og aftur án árangurs en nú er ég búin að gefast upp og læt bara flakka.
This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Íslenskt mál, ungdómurinn og foreldrarnir.

  1. Eva says:

    Fólk leiðréttir ekki börnin sín af því að það hefur engan áhuga á tungumálinu jafnvel þótt það viti hvernig blessuð börnin skrifa og tala. Það er svosem nógu slæmt en ég er hrædd um að margir hafi heldur ekki hugmynd um hvað er raunverulega að gerast í lífi barnanna. Ég held að það endurspeglist í málfarinu hversu mikið er hlustað á krakka heima. Dæmið sem þú tekur er einmitt þannig að það myndi enginn fullorðinn nenna að hlusta lengi á ungling sem talar svona mál. Maður hlyti að reyna að leiðrétta og sú kennsla skilar sér yfirleitt.

  2. Þórunn says:

    blogg-tungumál
    Ég er sammála ykkur, ég hef rekist á margar heimasíður ungmenna sem eru mikið verri en þessi, ætli þetta sé einhver tíska, hver api eftir öðrum? Foreldrar þurfa sannarlega að vita meira um hvað börnin eru að láta frá sér á netið.

Skildu eftir svar