Næsta árstíð að ganga í garð.

Dagurinn í dag hefur einkennst af hausti. Ekki það að haustið sé ekki gott því það er ein af okkar fjóru árstíðum sem allar eru jafn sjarmerandi hver á sinn hátt.

Það sem hefur gert daginn svona haustlegan er að það var rigningardrungi í morgun og hvasst. Ég kveikti mörg ljós því mér fannst svo dimmt en þá fór ég að hugsa um hvað það væri nú margt sem maður gæti gert þegar veðrið færi að vera þannig að fyrsta hugsunin væri ekki bara sú að vera á pallinum eða fara eitthvert af því veðrið væri svo gott.

Ég hugsaði því þegar ég hafði dregið frá gluggunum í morgun að nú gæti ég bakað kleinurnar sem ég hef frestað aftur og aftur að baka. Maður er nefnilega ekki inni að baka kleinur þegar veðrið er gott. Haukur er allavega búinn að sannfæra mig um það. Svo væri líka gaman að fara að kíkja á tuskurnar og sauma kannski saman nokkra búta í löper eða púða. Nú, svo voru nokkrir veggir sem ég var búin að lofa málningu.

Nú er hinsvegar komið kvöld og hveitið og sykurinn enn uppi í skáp og því engar kleinur – ennþá, tuskurnar eru enn óhreyfðar í kassanum og málningin bíður í Húsasmiðjunni.
En, góð verk þarfnast skipulagningar og auðvitað verður maður að styrkja sig svo maður sé fær til góðra verka. Ég byrjaði þessvegna á því að fara í fyrsta tímann í vatnsleikfiminni í dag og ætla að vera dugleg að æfa þar í vetur.

Fyrsta skrefið er sem sé stigið og nú er bara að halda áfram og koma restinni í verk. Hugmyndirnar eru alla vega komnar á borðið. Ætli skipulagningin fari ekki fram á morgun og svo get ég farið að segja frá því hvað ég er rosalega dugleg 🙂

Haukur er farinn að vinna eftir langa sumarleyfið sitt. Það þýðir að ég er mikið ein og hef ágætan tíma svo nú er bara engin afsökun sem ég get fundið til þess að fresta þessum verkum frekar.

Það er því komið að því að bretta upp ermarnar NÚNA … og byrja að láta verkin tala.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Næsta árstíð að ganga í garð.

  1. Þórunn says:

    Pollýanna..
    Þessi síðasta hugleiðing þín er alveg frábær, hreinskilnislega sagt frá öllu og svo tekið til við Pollýönnu-leikinn sem þú ert alveg snillingur í. Þetta mættu fleiri gera, hætta að fárast yfir veðurdrunga en þess í stað skapa sól í sinni.

Skildu eftir svar