Aðeins öðruvísi.

Já nú eru dagarnir hjá mér með aðeins öðru sniði en verið hefur. Í fyrra kom Karlotta til mín eftir skóla tvo daga í viku, en nú er Oddur líka byrjaður í skólanum. Þau hafa verið á skólavist eftir að skólinn byrjaði en eru ekki ánægð þar. Mér datt því í hug að spyrja Guðbjörgu hvort hún héldi að þau myndu nokkuð vilja vera með ömmu eftir skóla. Hún sagðist nú hafa sjálf verið búin að láta sér detta það í hug en vildi ekki nefna það við mig svo ég þyrfti ekki að segja nei ef mér litist ekki á það. Hún spurði síðan börnin og það var samþykkt einróma að vera frekar með ömmu. Við ætlum að prufa þetta, en ef það gengur ekki þá er bara að fara aftur á skólavistina.

Fyrsti dagurinn okkar var í gær. Við byrjuðum auðvitað á því að fara á bókasafnið og finna okkur einhverja góða bók sem framhaldssögu Bróðir minn Ljónshjarta varð fyrir valinu hjá þeim og við lásum fyrstu þrjá kaflana í dag. Ég var ánægð með valið hjá þeim, því það er skömm frá því að segja, að ég hef sjálf aldrei lesið þessa merku bók.

Ég veit að þetta verður skemmtilegt og amma horfir alla vega björtum augum á framhaldið.

Hér bíður Karlotta eftir bróður sínum í tónlistaskólanum.

Hér er litli bróðir kominn í rúmið um kvöldið.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar