Netvinkona mín úr Portúgal í heimsókn.

Dagurinn í gær var mjög sérstakur hjá mér og reyndar hjá okkur Hauki báðum.

Netvinkona mín hún Þórunn sem býr í Portúgal með manninum sínum Páli er stödd hér á landi og þau komu að heimsækja okkur á Selfoss í gærkvöldi.  (Endilega lesið framhaldið fyrir neðan myndina)

IMG_0308

Við áttum yndislega stund með þeim hérna í Sóltúninu. Það var sko alveg orðið tímabært að við vinkonurnar fengjum að sjá hvor aðra og hittast eftir allar bréfaskriftirnar.
En það átti nokkuð merkilegt eftir að koma í ljós, því eins og svo oft gerist þegar íslendingar hittast þá tengjast þeir oft á einn eða annan hátt. Það var nú ekki ómerkilegra sem kom í ljós en það, að Palli og Haukur eiga sama afa -ótrúlegt en satt. Föðurafi Hauks átti sem sé barn áður en hann kynntist ömmu hans á Borgarfirði Eystri. Þetta barn varð síðan móðir Palla.  Dæmið er þá ekki flóknara en svo að pabbi Hauks og mamma Palla voru hálfsystkin. Palli sagðist hinsvegar aldrei hafa kynnst þessum afa sínum. Svo kom fleira í ljós þegar Palli fór að tala um vinafólk sem þau ætluðu að heimsækja í Þorlákshöfn. Þeir aðilar reyndust báðir náskyldir Hauki í móðurættina.

Er þetta ekki alveg magnað – það finnst mér.

Þórunn og Palli ef þið lesið þetta þá kærar þakkir fyrir þetta skemmtilega kvöld. Vonandi hittum við ykkur aftur áður en þið farið heim.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Netvinkona mín úr Portúgal í heimsókn.

  1. afi says:

    ER EKKI HEIMURINN LÍTILL?

  2. Þórunn says:

    Takk, takk
    Kæra Ragna, ég er sammála við áttum saman yndislegt kvöld og ekki var það verra að Palli og Haukur komust að frændskap sínum, það var virkilega óvænt og ánægjulegt. Það er engin spurning að við munum líta inn til ykkar aftur áður en við kveðjum Ísland. Kærar þakkir fyrir okkur, Þórunn og Palli, sem biður að heilsa frænda.

Skildu eftir svar