Hátíðisdagur í Sóltúninu í dag.

Í dag varð alveg óvænt hátíðisdagur hjá okkur Karlottu og Oddi Vilberg.

Það byrjaði á því að Karlotta hafði meitt sig á fæti í skólanum en það var sem betur fer ekki alvarlegt, en samt nóg til þess að hún treysti sér ekki til að standa upp á endann á kóræfingu í dag. Vitanlega er það ekki til þess að hafa hátíðisdag ef einhver slasar sig, en maður á auðvitað alltaf að leita leiða til að breyta slæmu í gott og  þarna sá amma  gott tækifæri til að nota þá reglu.

Við höfum nefnilega lokið við lestur bókarinnar um bræðurna Ljónshjarta og nú þegar heilt síðdegi beið okkar, var tækifæri til að gera eitthvað óvænt og skemmtilegt og taka videomyndina um þá bræður á bókasafninu, kaupa poppbaunir og bruna síðan heim til ömmu og halda daginn hátíðlegan.

Við hjúfruðum okkur svo saman og horfðum á myndina um bræðurna sem við höfum verið að lesa um undanfarið. Mikið var þetta nú ljúft hjá okkur. Þetta smellpassaði svo alveg við tímann sem við höfðum því Guðbjörg kom að sækja krakkana þegar myndin var að klárast.

Afi tók þessa mynd þegar við vorum að ljúka við síðasta lestur bókarinnar.

IMG_0301

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Hátíðisdagur í Sóltúninu í dag.

  1. Sigurrós says:

    Töfrahliðin
    Þetta hefur aldeilis verið skemmtilegt! 🙂 Nú er bara spurning hvaða bók þið ætlið að lesa næst. Sagan „Gegnum þyrnigerðið“ eftir Iðunni Steinsdóttur á ákveðin sameiginleg einkenni með Bræðrunum Ljónshjarta en samt allt öðruvísi saga. Gefur tilefni til mjög góðra umræðna.

    Bækurnar um Narníu hafa alltaf verið í uppáhaldi hjá mér. Sú fyrsta er „Ljónið, nornin og skápurinn“ en 3. eða 4. bókin, „Sigling Dagfara“ er samt alltaf skemmtilegasta bókin að mínu mati. Narníubækurnar tengjast kristinni trúarsögu þó nokkuð og það er mikið um það sem kallaðar eru vísanir yfir í Biblíuna. Ég tók ekkert eftir því þegar ég las bækurnar sem lítil stúlka en fannst það ótrúlega augljóst og blasa við þegar ég las þær í enn eitt skiptið fyrir svona 3 árum.

    Hvernig væri svo að lesa einhverja góða eftir snillinginn Roald Dahl, þann sem samdi „Kalla og sælgætisverksmiðjuna“ og „Matthildi“?

    En auðvitað eruð það þið sem veljið eitthvað skemmtilegt í sameiningu öll 3 – langaði bara að gefa ykkur einhverjar hugmyndir. Öfunda ykkur rosalega eiga framundan ferð á bókasafnið til að velja ykkur saman töfrahlið inn í annan heim! 🙂

  2. Ragna says:

    Gaman, gaman
    Þakka þér kærlega fyrir ábendingarnar Sigurrós mín. Oddur var eitthhvað að tala um „ljónið og nornina uppi á þakinu“. Nú sé ég alla vega við hvað hann átti. Já, við eigum spennandi tíma framundan.

  3. afi says:

    Þetta er afar góð saga, um þá bræður. Þessi bók var mikið lesin í ömmubæ á árum áður. Framhaldsþáttunum af sögunni var safnað saman og voru mikið notaðar. Þorleifur Hauksson las söguna í útvarpinu og gerði það lista vel. Eitt sinn var spurst fyrir um þennan magnaða lestur og beðið um endurflutning. Svarið var, ekki hægt það er búið að taka yfir lesturinn. Er þetta nú hægt?

Skildu eftir svar