Sólargeislarnir.

Í gærmorgun um níuleytið, þegar ég sat við eldhúsborðið hjá mér og var að borða hafragrautinn minn þá tók ég eftir því hvað það dimmdi mikið og síðan gerði slyddu og hvít snjókornin settust á pallinn hjá mér. Mér fannst þetta eitthvað svo ógnvekjandi og fór að hugsa um hvað veturinn kæmi allt of snemma og hvort þetta yrði ekki harður vetur sem sýndi sig svona fljótt og hvernig yrði nú að komast áfram í umferðinni þegar færi að verða ófært. Já alls konar dapurlegar hugsanir um veturinn fylltu huga minn á meðan élið stóð yfir og allt var svo dimmt. Mest langaði mig bara til að skríða aftur upp í rúm og breiða upp fyrir haus.

En áður en til þess kom þá sá ég að snjókornin voru bráðnuð og ég tók eftir því að sólin var farin að senda hlýju geislana sína inn um gluggann í stofunni og þegar ég leit til fjalla þá sá ég hvernig hún sleikti hvítu fjallatoppana á Hellisheiðinni. Síðan fór ég að hugsa um hvað það væri nú stutt þangað til maður gæti farið að taka fram aðventudótið og setja ljósin í gluggana og allt í einu varð allt svo bjart í huga mér og mér leið alveg sérlega vel. Nú langaði mig til að gera eitthvað skemmtilegt svo ég tók fram bútasaumsdótið og saumaði dúk á nýja sófaborðið hans Hauks.

Svona er lífið, það skiptast á skin og skúrir og auðvitað á maður að vita að maður stendur af sér skúrinn og baðar sig síðan í skininu.

Njótið dagsins, það ætla ég að gera með því að fara í tveggja ára afmæli litla sólargeislans hennar Sólrúnar Maríu.

IMG_0311

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Sólargeislarnir.

  1. Eiki says:

    Sól sól sól
    Úff hér var sól og 20° í gær

    Kv Eiki og co í DK

  2. afi says:

    Þetta bara sýnir okkur að fátt er svo með öllu íllt að ekki boði nokkuð gott. Óttumst ekki veturinn, bjóðum honum byrginn og látum engan bilbug á okkur finna.

  3. Ragna says:

    Já afi sæll við erum góð í þessu.

Skildu eftir svar