Unglingaveiki.

Við vorum að koma heim úr skólanum, amma við stýrið og Karlotta og Oddur í aftursætinu, þegar amma sér allt í einu að út um glugga á bílnum fyrir framan okkur koma fljúgandi  bréf utan af skyndibitum og drykkjarfernur. 

Amma varð svo reið að hún öskraði upp yfir sig og hélt ræðu um sóðaskapinn og tillitsleysið. Karlotta spurði af hverju amma væri svona reið við þau, þá sljákkvaði aðeins í ömmu því sökudólgarnir heyrðu auðvitað ekkert af þessari þrumandi ræðu um sóðaskap og tillitsleysi, heldur sátu saklaus barnabörnin og héldu að amma væri orðin alveg snargalin.

Eftir nokkra stund segir Karlotta  "amma ætli þetta séu ekki bara unglingar" ekki var nú amma viss um það. Þá gellur í Oddi " Örugglega unglingar með unglingaveikina, nefnilega ef maður fær unglingaveikina þá gerir maður alls konar sem maður á ekki að gera en gerir það samt af því að maður er með unglingaveikina.  Ég veit þetta af því að bróðir vinar míns er sko með unglingaveikina".

Nú komst amma í enn meiri ham í  ræðuhöldum sínum og blessuð börnin þurftu nú að sitja undir fyrirlestri um þessa svokölluðu "unglingaveiki" því ekki vildi amma að stubburinn héldi að unglingar mættu gera hvað sem er og afsaka það síðan með unglingaveiki.

Ég held að börnin hafi aldrei nokkurn tíman verið eins fljót út úr bílnum þegar við renndum í hlað í Sóltúninu eins og í þetta skiptið. Þau bókstaflega flugu og beint inn í skúr þar sem afi var eitthvað að laga til. Þau komu ekki inn til ömmu fyrr en þau fundu vöfflulykt og voru nokkuð viss um að amma myndi ekki halda fleiri ræður í bili.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Unglingaveiki.

  1. afi says:

    Fátt fer eins mikið í taugar afa, en þegar hent er rusli útum bílrúður. Þetta er ljótur ósiður. Þótt ekki sé alltaf um ungt fólk að ræða, ætlar afi að það sé oftar en ekki. Stans á rauðu ljósi er svo brúkað til að losa úr öskubakkanum. Er það ekki hámark ósvífninnar?

  2. Þórunn says:

    Ég get heldur ekki orða bundist, hélt að þetta væri liðin tíð á Íslandi því það er búið að tala svo mikið um svona sóðaskap. En því miður þekkist þetta líka hérna í Portúgal, oft með hræðilegum afleiðingum þegar fólk hendir logandi sígarettum út um bílgluggann, svo stendur skógurinn í björtu báli eftir skamma stund.
    Það mættu fleir halda svona þrumandi ræður en Amma í Sóltúni, það er bara verst að þær ná sjaldan eyrum sökudólganna.

  3. Linda says:

    Ég get ekki verið meira sammála því að sóðaskapurinn sé hinn argasti dónaskapur.. Þetta er þvílík sjónmengun..
    Hér í Connecticut-fylki í Ameríku, þar sem ég bý, eru himinháar sektir fyrir að henda rusli í náttúruna.. og því er stranglega fylgt eftir af lögregluyfirvöldum.. enda er varla að maður sjái svo mikið sem tyggjóklessu á gangstígunum..
    Ég verð að segja að reykingamenn eru þeir verstu þegar kemur að sóðaskap.. þeir henda stubbunum yfirleitt hvar sem þeir standa.. Og það versta er að það tekur sígarettufilterinn um 30 ár að eyðast úti í náttúrunni..

Skildu eftir svar