Nýtt hulstur – fjarlæg draumsýn.

Á föstudaginn lögðum við upp fjögur, Karlotta, Oddur Vilberg, amma og tölvan. Ferðinni var heitið til borgarinnar þar sem krakkarnir voru að fara í helgarferð til pabba síns, amma átti að vera í saumaklúbb og fleiru á laugardaginn og tölvan, já blessuð tölvan var alveg að niðurlotum komin. Hún þurfti í aðgerð til höfuðborgarinnar samkvæmt áliti Jóa sérfræðings. 
Já að fengnu sérfræðiáliti á því braki og brestum sem hafa verið að ágerast og því vandamáli hvað erfitt hefur verið að ræsa hana undanfarið og fá hana til þess að gera það sem henni hefur verið fyrirskipað,  þá var úrskurður sérfræðingsins sá, að sakir krankleika og elli  þá væri rétt að slá hana af áður en hún hryndi sjálf með ófyrirséðum afleiðingum. Best væri að fá nýjan hugbúnað í nýjum kassa, hitt gæti ég notað áfram.

Börnunum var því komið til pabba síns og tölvunni til Jóa og Sigurrósar þar sem nýr hugbúnaður beið, beint úr búðinni og nú átti Jói það verk fyrir höndum að færa allt úr þeirri gömlu yfir í nýja gripinn. (Ég þykist vita að Jói brosi ef hann les þessa lýsingu því það er nú eitthvað flóknara sem á sér stað, en tæknimálin eru mér hulin ráðgáta) . Ég átti von á að eiga dapra tölvulausa daga eitthvað fram í vikuna en Jói var ekkert að láta helgina líða hendur tók strax til óspilltra málanna og tölvan var send austur í gær og þá var nú gott að eiga hinn tengdasoninn að og Magnús  Már kom og setti upp ýmis forrit sem ég þarf að hafa, eins og t.d. það sem heldur utanum myndirnar mínar og fleira.

Ég er alsæl með nýja gripinn og hvílíkur munur. Nú svífur maður á milli aðgerða eins og býfluga á blómi.

Elsku strákar mínir ég þakka ykkur kærlega fyrir að hugsa svona vel um tengdamömmu.

P.S. Ég var að hugsa um hvað það væri nú fínt þegar maður stendur sjálfur í þeim sporum að aldurinn færist yfir, að geta bara fengið sér nýtt hulstur (slétt og auðvitað vel formað) með nýjum hugbúnaði (nýtt minni væri toppurinn)  og færa síðan gömlu minningarnar og fleira gott  yfir en fleygja því sem ekki er þörf á lengur. Þetta er líklega fjarlæg draumsýn en á maður ekki alltaf að vera bjartsýnn.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Nýtt hulstur – fjarlæg draumsýn.

  1. Jói says:

    Vélbúnaður reyndar
    Það var reyndar skipt um vélbúnað og stýrikerfi.

    Hugbúnaðurinn er öll forritin, flest þeirra lifðu áfram, gögnin lifðu svo öll, það er skjölin, bókamerkin og fleira.

    En já, það er ekki slæmt að geta skipt um hulstur og hraðað á heilanum og aukið minnið.

  2. Ragna says:

    Já, hér sér maður þörfina fyrir nýju toppstykki, þ.e.a.s. fyrir gömlu konuna.Ekki sakaði að hafa smá minniskubb fyrir tæknimálin.

  3. afi says:

    Það er gott að eiga góða að þegar eitthvað bjátar á. En það versta við þessar tölvur, að þær gera ekki alltaf það sem maður hugsar.

  4. Anna Sigga says:

    Til hamingju…
    … með „nýja“ gripinn. Vonandi þjónar hann þér vel og lengi í framtíðinni og hagar sér skikkanlega.

Skildu eftir svar