Erfitt að bíða.

Um daginn, þegar ég fór í litlu búðina í Minni Mástungu þá keypti ég mér nokkra efnisbúta. Mest langaði mig til að fara beint í það að sauma eitthvað skemmtilegt þegar ég kom heim en ég átti hinsvegar ýmislegt ógert svo ég hef haft þá svona sem verðlaun sem ég fæ þegar ég er búin með annað.
Það styttist nú óðum í að ég geti farið að skera og sauma því ég er smám saman búin að búa til yfir 60 jólakort, þvo gardínur og gera hreint svefnherbergið og gesta/tölvuherbergið og á nú bara eftir stofuna og eldhúsið.
Mér finnst ég alveg geta verið ánægð með mig og efnisbútarnir liggja á stofuborðinu og efla mig stöðugt til dáða. Ég tók þá reyndar upp áðan og var um það bil búin að sannfæra sjálfa mig um að ég ætti nú alveg skilið að fara að tuskast eitthvað en skynsemin tók yfirhöndina og kom með þau rök að betra væri að klára hitt fyrst og setjast síðan glöð og ánægð við tuskurnar án þess að vera með samviskubit yfir öðru. Nú er því best að sitja ekki lengur við tölvuna heldur halda áfram svo ég fái verðlaunin mín. Svo má ekki gleyma að sækja blessuð börnin í skólann.

Ég má til með að sýna ykkur tuskurnar mínar svo þið (allavega þið sem tuskist) skiljið betur hvað það er nú í raun erfitt að  byrja ekki bara STRAX. Ég veit ekki hvort það sést á myndunum en það er talsverð gylling í efnunum.

IMG_0445

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Erfitt að bíða.

  1. Linda says:

    Þetta eru reglulega falleg og smekkleg efni Ragna.. Hin fullkomna gulrót, til að ýta manni áfram..

    Ég dáist af sjálfsaga þínum.. það gen vantar algerlega í mig..

  2. Þórunn says:

    Handavinna
    Sæl Ragna mín, þakka þér fyrir bréfið. Mikið skil ég þig vel með að langa til að byrja að klippa og sauma, en þú átt hrós skilið fyrir staðfestuna. Ég fór í búðir í gær og ætlaði að kaupa jólaleg efni til að gera jólakort, en það er lítið úrval af svona efnum í Portúgal. Gangi þér vel með tiltektirnar.

  3. afi says:

    Til í tuskið?
    Hvernig er þetta meððig? Ertekki að verða klár í slaginn? Láttu allar tiltektir bíða og helltu þér yfir tuskurnar. Þú getur ekki látið svona flottar tuskur bíða endalaust. Upp með skærin og hananú.

  4. Sigurrós says:

    Rosalega er þetta fallegt! Mér finnst efnið með laufblöðunum grænu, rauðu og appelsínugulu eiginlega fallegast. Hlakka til að sjá það sem þú ákveður að sauma, það mun pottþétta fara vel í fallegu stofunni þinni. 🙂

Skildu eftir svar