Í bústað í vetrarfríinu.

Á fimmtudaginn fór ég með Guðbjörgu, Magnúsi Má og krökkunum í kennarabústað á Flúðum í vetrarfríinu í skólanum. (allar myndirnar)
Haukur var fjarri góðu gamni eins og svo oft þegar ég vildi svo gjarnan hafa hann hjá mér, en Ál-frúin hefur betur og heldur honum í sinni þjónustu í Straumsvíkinni.

Það hljómar kannski einkennilega eftir þessa veðrahelgi en við vorum afskaplega heppin með veðrið þessa daga sem við vorum á Flúðum. Haukur hringdi á föstudagsmorguninn og spurði með hluttekningu "Hvernig er hjá ykkur"?  "Alveg svakalega fínt" sagði ég, "ég var að koma úr göngutúr og rólóferð með krakkana".  Þá kom fyrst þögn og síðan langt ha a a. Í bænum var sem sé brjálað veður og einnig á Selfossi en hjá okkur var bara aðeins fjúk.

Annars fór rafmagnið af þarna á föstudagsmorgninum í nærri klukkutíma, en ekki veit ég ástæðuna fyrir því. Við biðum svo allan daginn eftir að veðrið kæmi yfir okkur líka en það hefur eitthvað villst á leiðinni. Sem betur fer snjóaði samt um nóttina og laugardagurinn var í einu orði sagt yndislegur frá morgni til kvölds. Þegar ég fór með krökkunum út í snjóinn þá fannst mér við vera að leika okkur í póstkorti slík var stillan.

IMG_0402

Eftir hádegið á laugardag fórum við svo í bíltúr að Minni Mástungu. Ég hef heyrt talað um litlu Hans og Grétu búðina þar og bútasaumsefnin og allt hitt sem þar er selt en ég áttaði mig ekki á að þar væri líka hótel, Hótel Freyja. Það er ótrúlegt að koma þarna inn. Hvílíkar skreytingar, sem er breytt eftir árstíðum. Það var ennþá sumarþema á staðnum en átti að fara að breyta í jólaþema. Þarna voru bútasaumsdúkar og bútasaumsteppi um allt og alls konar skrautmunir. Ég byrjaði auðvitað á því að teygja mig í töskuna mína eftir myndavélinni en þá var ég stoppuð og sagt að það mætti ekki taka myndir þarna. Hinsvegar bauðst húsfreyjan til að taka af okkur mynd og valdi hún staðinn fyrir það sjálf. Eins og sést er skrautið þarna ótrúlegt, en húsfreyjan passar uppá að teppin hennar séu ekkert í mynd.

IMG_0424

Það er mjög fallegt þarna í Minni Mástungu og þess virði að skreppa og skoða. Þetta er nokkru fyrir ofan Árnes.

Já okkur leiddist ekki í eina mínútu í þessu vetrarfríi þarna enda ekki lagt upp með þeim hugsunarhætti.

Föndrað í vetrarfríinu á Flúðum

Heiti potturinn var svoldið að stríða okkur og vildi ekki vera eins heitur og við helst óskuðum en það var samt ljúft að skríða ofaní hann í blíðviðrinu.  Ekki spillti að Guðbjörg kom hlaupandi út að potti með símann minn sem hafði hringt og ég talaði við Þórunni frá Portúgal og Gurrý frá Amman í sama símtalinu. Þórunn var búin að reyna að ná í mig svo ég gæti hitt þær netstöllur í bænum en ég var of fjarri til þess að ná því en það var gaman að heyra röddina hennar Gurrý og geta kvatt Þórunni áður en hún hélt til Portúgal aftur.  Núna er hún líklega komin aftur í sólina og fer að setja inn myndir og frásögn af íslandsferðinni.

———-

Guðbjörg mín og Magnús Már. Ég þakka ykkur kærlega fyrir þessa yndislegu daga. 

 ÞETTA VAR FRÁBÆRT. TAKK, TAKK, TAKK.

IMG_0426

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to Í bústað í vetrarfríinu.

  1. afi says:

    Þetta hefur verið alveg glimrandi ferð.

  2. afi says:

    Átti von á óveðursmyndum ekki þessari dýrð.

  3. Ragna says:

    Já, við vorum alveg einstaklega heppin og ótrúlegt að sitja í ágætisveðri og hlusta á fréttir um óveðrið allt í kringum okkur.

  4. afi says:

    Glópalán
    Sumir eru heppnari en aðrir. Það er bara hið besta mál.

  5. Linda says:

    Glæsilegar myndir Ragna.. Þú ert þvílíkur myndasmiður..

  6. Þórunn says:

    Komin heim
    Sæl Ragna mín, já við erum komin heim í Kotið okkar og líður vel með það. Við þökkum ykkur Hauki fyrir frábærar móttökur og góða samveru. Kvöldið sem við áttum með ykkur líður seint úr minni, það var svo einstakt.

Skildu eftir svar