Komið að því.

Á sunnudaginn drifum við okkur skötuhjúin í bæinn því bæði áttum þar erindi á mánudeginum. Á leiðinni í bæinn fékk ég þá snilldarhugmynd að  skella okkur í að sjá Harry Potter í Lúxussal en þann munað hafði ég aldrei upplifað. Ástæða þess að  lúxussalur varð fyrir valinu var þó ekki sú að ég væri orðin of góð með mig til að fara í venjulegan bíósal heldur hitt að Haukur  verður að hafa nýskornu tána sína uppi á skammeli og í lúxussal eru þessir líka fínu Lazy-boy stólar. Við sátum því í VIP rými og úðuðum í okkur ómældu poppi og gosi á meðan við horfðum á Harry blessaðan berjast fyrir lífi sínu á skjánum.  Það er einungis einn mínus á þessu athæfi. Héðan í frá kemur auðvitað ekkert til greina að fara í bíó nema í svona sal. Hvílíkur unaður að sitja í svona svakalega fínum stólum með borð við hliðna á sér fyrir veskið sitt og auðvitað fyrir poppið og gosið,  halla sér aftur á bak með tærnar upp í loft og njóta þess að horfa á þriggja tíma mynd á skjánum.

———–

Nú var komið að erindum mánudagsins. Haukur átti að mæta klukkan 11 á Jósefsspítala í Hafnarfirði til þess að taka sauma og skipta um gifs á fætinum. Það var hins vegar komið að því hjá mér að mæta í fyrsta tímann í rannsóknarverkefninu sem ég lét hafa mig í að taka þátt í.

Ég mætti samviskusamlega, fastandi samkvæmt fyrirmælum klukkan 8:30 upp á Krókháls og síðan ætlaði ég að sækja Hauk á Austurbrúnina og við aka í rólegheitunum suður í Hafnarfjörð í gifsskiptin og ég ætlaði kannski að taka nokkrar myndir í Hafnarfirði af því að veðrið var svo gott.
Það var nú ekkert alveg í rólegheitunum þennan morgun nema jú rannsóknarfólkið.

Þessi fyrsta heimsókn mín var líkust því að ég væri að sækja um stöðu í leyniþjónustu.
Það fyrsta sem mér bar að gera var að lesa mig í gegnum 17 blaðsíður sem skýrðu út rannsóknina, kosti hennar og hættur.  Síðan kom hjúkrunarfræðingurinn sem tók á móti mér og dró mig inn í herbergi þar sem hún fór aftur yfir þessar 17 blaðsíður og ég varð að kvitta á hverja og eina með stöfunum mínum. Ég varð líka að skrifa nafnið mitt sem samþykk þessu með bæði blokkstöfum og skrifstöfum á nokkrum stöðum. Eftir nokkrar yfirheyrslur um heilsufar mitt þá var ég vegin og mæld, tekið öndunarpróf, hjartalínurit, blóðprufur og mér skipað að pissa í glas. Ég var nú farin að líta á klukkuna því ég var ekki búin að gleyma því að ég ætti að sækja Hauk og var fegin þegar þarna var komið sögu, eftir tveggja klukkutíma yfirheyrslur, að þetta væri nú búið og virtist ætla að passa við tímann.

"Búið" sagði hjúkkan " nei, þú átt alveg eftir að hitta lækninn".  Ég varð því að fá leyfi til að fara og koma síðan aftur að hitta lækninn þegar ég kæmi til baka úr Hafnarfjarðarferðinni með Hauk.
Þegar ég mætti aftur, byrjuðu yfirheyrslurnar á ný  og nú mun ítarlegri en áður. Það þurfti upplýsingar um alla mína skurði og spítalaferðir og  um almennt heilsufar mitt allt frá því að ég var barn. "Hvort ég hefði oft fengið útbrot þegar ég var lítil. Hvort ég hefði oft fengið hósta"  Halló, Halló, ég er 60 ára í dag, hvernig á ég að muna eða vita hvort ég hafi fengið útbrot eða ekki, allt frá því ég var ungbarn. Eftir allt þetta var svo nákvæm læknisskoðun. Haukur, sem beið eftir mér í þessum seinni hluta var farinn að halda að ég hefði smeygt mér út  og skilið hann eftir og honum létti stórum þegar ég loksins kom fram eftir klukkutíma viðtal við lækninn.

Nú bjóst ég við að ganga út með fyrsta pilluglasið. Nei, ég á að mæta aftur á föstudaginn og tala þá aftur við lækni og ef allt hefur komið rétt út þá fæ ég fyrsta skammtinn af þessu blessaða lyfi eða lyfleysu.  Hvort heldur það verður veit hvorki ég eða starfsfólk stöðvarinnar. það munu bara vera einhverjir á æðri stöðum sem vita það.

Ég kveð ykkur mjög hugsi yfir þessu öllu saman.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

10 Responses to Komið að því.

  1. Sigurrós says:

    Ertu viss um að þetta hafi ekki bara verið dulin tilraun til að fá þig í leyniþjónustu CIA? Passaðu bara að hafa varann á þér, ég vil síður að þú verðir send til Rúmeníu eða eitthvert álíka… 😉

  2. Ragna says:

    Við látum þetta ekki fara lengra!

  3. afi says:

    Hjá CIA
    Það er ekki tekið ú með sældinni að taka þátt í svona löguðu. En þetta á bara eftir að versna, aaa meina lagast, vill afi meina. Gangi þér vel í framhaldinu. Hver veit nema þú eigir eftir að komast á mála hjá CIA eftir allt saman?

  4. Svanfríður says:

    vá Ragna…þú ert lent í hörkuvinnu. Gangi þér vel.

  5. Linda says:

    Vá.. þetta er svaka verkefni sem þú ert komin í..
    Maður fylgist bara spenntur með..

  6. Ragna says:

    Já svo á ég að halda dagbók um herlegheitin. Ætli þetta verði ekki eins og hjá Skrámi í jólakvæðinu
    Dagur eitt ……….
    Vonandi verður mitt þó ekki eins rosalegt og hjá Skrámi.

  7. EddaGG says:

    hvaða, hvaða
    Didda mín,
    Það er ekki að spyrja að þessu spurningqaflóði hjá þessum læknum.
    en einhversstaðar hef ég misst úr, hvaða rannsókn er þetta?

  8. Gurrý says:

    Dúkkur og sólarlag
    Var að lesa fyrri dagbókarfærslur og rakst á söguna um dúkkurnar ykkar systra. Ég fór í gegnum eitthvað svipað í barnæsku, ég man vel eftir minni fyrstu dúkku og hvað það var gaman að leika með hana, myndir af mér á þeim árum eru allar með þessari dúkku. Sólarlag í desember er svo sérstakt ekki nema von að amma þín líkti því við jólaljós. En heyrðu nú hvaða tilraunadýr ert þú orðin? Þú verður endilega að segja meira frá þessu! Kveðja og takk fyrir að hlusta á þáttinn á NFS í morgun, gaman að heyra frá einhverjum sem heyrði í mér 🙂 Gurrý

  9. Eiki Danski says:

    Það þarf örugglega að fá samþykki frá Kára hvort þú sært hæf í þetta verkefni 🙂 hvort sem verður og hvernig sem fer gangi þér vel 😉

  10. Ragna says:

    Tilraunadýr.
    Það hefur farið framhjá einhverjum um hvað málið snýst.
    Ég samþykkti sem sé eftir þrábeiðni, að verða tilraunadýr í rannsókn á nýju lyfi við astma. Nú bara krossar maður fingur og vonar að annaðhvort fái maður lyfleysuna eða að þetta virki allt vel og slysalaust.

Skildu eftir svar