Selfyssingur?

Ég var spurð hérna á síðunni hvort ég væri Selfyssingur? Ég ætlaði að fara að svara í orðabelgnum en ákvað þá að betra væri að færa sig bara í sjálfa dagbókina því plássið væri meira hér. Maður veit aldrei hversu mikil langloka verður í svona svari.

Ég er sko hvílíkur Reykvíkingur, fædd þar og hef búið í Reykjavík í yfir 50 ár, lengst af í Kleppsholtinu. Hinsvegar á ég systur sem gifti sig ung Eyrbekking og flutti á Selfoss þar sem hann var þá  kennari og þau hafa bæði verið kennarar hérna síðan fyrir 1960.  Þetta verður að vera með í sögunni minni.  

Eldri dóttir mín, sem er kennari, ákvað að breyta til í sínu lífi og flutti á Selfoss með börnin sín tvö fyrir nokkrum árum og réði sig hingað í kennslu. Hennar sambýlismaður er einnig kennari hérna. Ég er semsagt umkringd kennurum, sem er sko ekki slæmt,  yngri dóttir mín er nefnilega líka kennari – en það er nú önnur saga.

Ég var í heimsókn hérna fyrir austan á þessum árstíma árið 2001 og kom þá til systur minnar og sá hjá henni teikningu að raðhúsi sem ætti að byggja í nýja Fosslandinu eftir áramótin, en  Fosslandið  nær hérna niður að ánni vestan við kirkjuna. Mér fannst þetta einstaklega skemmtileg teikning og staðsetningin þannig að það var ekkert hús sem náði að garðinum sunnanmegin heldur bara göngustígur í átt að ánni sem er í svona 3 mín. fjarlægð og handan við göngustíginn opið svæði. Systir mín og mágur voru mikið að spá í að kaupa annan endann á þessu fyrirhugaða húsi og ég sagði svona í gríni að þetta væri alveg frábært því ég keypti svo bara hinn endann. Við værum búnar að búa of fjarri hvor annarri svo lengi að nú væri tækifærið . Síðan væri nú ekki verra að hafa Guðbjörgu og barnabörnin svona nálægt sér. Svo var bara hlegið að þessu. Þau voru ekki búin að ákveða sig með eitt eða neitt voru bara að spá í að minnka við sig og voru með þessa teikningu á borðinu hjá sér, sem "litla systir" fór að hnýsast í.

Þegar ég kom heim úr Selfossferðinni fór ég að segja Sigurrós frá þessu en hún bjó þá heima og hennar kærasti en þau áttu eftir ár í framhaldsnámi og ætluðu þá að kaupa sér íbúð sjálf. 
Sigurrós sagði strax "Mamma, af hverju gerir þú þetta ekki bara við björgum okkur."

Á þessum tíma var ég orðin ekkja og öldruð móðir mín sem hafði búið í húsinu hjá mér var látin.  Ég réði mér því alveg sjálf og var með of stóra eign sem kæmi að því að selja þó ég hafi ekki ætlað að gera breytingar fyrr en Sigurrós væri búin í náminu.  Minn styrkur við námið hennar fólst í því að hún gæti búið heima á meðan hún væri að læra.
Ég var búin að vera í fjarbúð með Hauki í nokkur ár, en Haukur vinnur þannig að hann vinnur í 5 daga og á 5 daga frí svo við sáum fram á að geta átt góða daga  hérna saman  og svo gætum við verið í íbúðinni hans í bænum þegar svo bæri undir.  Ég sá  strax að það var alveg rétt hjá Sigurrós að drífa bara í þessu.

Til að gera langa sögu stutta þá talaði ég við fasteignasala, sem seldi mína íbúð eins og skot. Hingað er ég svo komin í annan endann á þessu frábæra raðhúsi og mjög ánægð með lífið  í sveitasælunni og hver haldið þið svo að búi í hinum endanum á húsinu nema systir mín og mágur.
Barnabörnin koma svo til mín úr skólanum á daginn og Guðbjörgu og Magnús Má sé ég svo til daglega, svo það má segja að dæmið hafi alveg gengið upp. Þaða eina sem vantar er að hafa Sigurrós nær sér líka þá væri allt fullkomið.

Þú sérð það núna Svanfríður mín að spurningu þinni varð ekki svarað í orðabelgnum. Ég á  stundum svo erfitt með að vera stuttorð, verð að skýra allt svo nákvæmlega.  

Ég sendi bara góðar kveðjur úr nýja byggðalaginu mínu.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Selfyssingur?

  1. Svanfríður says:

    Takk
    Takk fyrir þetta Ragna. Öll eigum við okkar sögu og því þakka ég þér fyrir þína. Hafðu það gott á Selfossi nú og alltaf.

  2. Linda says:

    Nýtt tímabíl og nýtt líf í nýju húsi í nýju bæjarfélgi..
    Það þarf kjark til að byrja upp á nýtt..

    Ég tek ofan fyrir þér..

  3. afi says:

    Nýtt líf
    Þetta var falleg og góð saga. Auðvitað á hún hvergi annarstaðar heima en í dagbókinni þinni. afi tekur undir að það kostar kjark að taka sig upp og byrja nánast upp á nýtt. Gott hjá þér. Þú hefur það greinileg gott á Selfossi í fallega húsinu þínu.

Skildu eftir svar