Í þágu vísindanna.

Já, í þágu vísindanna dreif ég mig út klukkan átta í morgun og smeygði mér inn í bílalestina sem var að fara til höfuðborgarinnar. Ekki var það nú svo gott að maður væri vel haldinn og búinn að fá sinn morgunmat því vísindin kröfðust þess að maginn yrði tómur í öllum heimsóknum á vísindasetrið.

Hinsvegar var það ekkert í þágu vísindanna að ég var með hausinn hálftóman í morgun þegar ég ók í myrkrinu og slabbinu í átt til borgarinnar. Það var ótrúlega mikill krapi á veginum miðað við það að uppgefinn hiti var +2°. Mér fannst ég ekkert sjá því myrkrið var svo svart og svo var einhver úrkoma og ég var að reyna að hafa háu ljósin  en það var alltaf einhver að koma á móti svo þetta urðu eintómar skiptingar á háum og lágum ljósum. Ekki bætti svo úr skák að þegar ég mætti öllum stóru flutningabílunum lá við að litli blái Pólóinn þeyttist út fyrir veg og krapagusurnar gengu yfir man svo að í augnablik sá maður EKKERT, eða ekki þar til þurrkurnar höfðu unnið sitt verk. Ég var að hugsa um það á leiðinni að sem betur fer væri rúðupissið í góðu lagi í svona veðri.  Þegar ég hinsvegar var komin að Ingólfsfjalli á heimleiðinni kom í ljós að allt rúðupissið var búið á tanknum. Heppin var ég að vera komin svona langt því nú rataði litli blár og ók rakleitt alla leið heim á stæðið sitt í Sóltúninu.

Ef það er eitthvað sem mér er illa við þá er það að aka í svona myrkri og krapa yfir heiðina. Elsku styðjið mig nú öll í því að það verði komið upp götulýsingu á Hellisheiðinni svo að gamlar kjarklausar konur komist til borgarinnar og heim. – í þágu vísindanna – ekki gleyma því hve tilefnið var göfugt.

Hvernig er það annars, ætli það sé aldurinn sem gerir mann svona kjarklausan. Ég minnist þess ekki að hafa verið svona bílhrædd hjá sjálfri mér hérna áður fyrr??? Það gæti kannski orðið næsta verkefni Kára að rannsaka það.

P.S. Heimsóknin til vísindamannanna var ágæt og nú er ég komin á fyrsta skammt af tilraunalyfinu og er alla vega á lífi ennþá, komnir 6 klukkutímar.

Góða helgi kæru bloggvinir.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

7 Responses to Í þágu vísindanna.

  1. Svanfríður says:

    Þú ert duglega Ragna mín.

  2. Kolla Rodeman says:

    Það er viskan
    Nei Ragna mín, það er ekki kjarkleysi vegna aldurs, það er VISKAN og SPEKIN sem kemur með aldrinum.
    Trust me!
    Ég legg líka með því að Hellisheiði verði lýst upp, en það verður trúlega um sama leyti og götuljós verða sett meðfram hraðbrautinni frá Bellingham til Seattle.
    Gangi þér allt í haginn með þessar ökuferðir.

  3. Ragna says:

    Takk,Takk. Gaman að sjá þig í heimsókn Kolla mín. Velkomin í hópinn.

  4. Þórunn says:

    Mikið lagt á sig
    Það er ekki lítið sem þú leggur á þig til að leggja vísindunum lið. Það þarf sannarlega kjark til að keyra við svona aðstæður. Ég hef einmitt verið að segja við sjálfa mig þegar ég er að keyra hér í mirkri að það sé bara af því að ég sé orðin svo „þroskuð“ að ég veit veit af öllum hættunum sem geta orðið á vegi manns. Þetta er ekki kjarkleysi heldur þroskamerki. Ég segi líka að það sé gott að vera mátulega hræddur, þá fer maður varlega. Glannaskapur er merki um vanþroska.

  5. Hulda thors says:

    ellin!
    Eg er nu bara 25 ara en er svo bilhraedd ad tad er varla haegt ad vera med mer i bil. Eg man eftir ad hafa keyrt heidina nokkrum sinnum i sona blindbil og i oll skiptin helt eg ad eg myndi aldrei fara tarna aftur…

  6. afi says:

    Hugrekki
    Hugrekki og fórnfýsi eru góðir mannkostir. Í þínu tilfelli ætti frekar að tala um kvenkosti. Auðvitað styðjum við lýsingu á þessari fjölförnu leið, ekki spurning.

  7. Ragna says:

    Kveðja til ykkar allra.
    Þakka ykkur öllum fyrir.
    Þið eruð frábær!

Skildu eftir svar