Útvarpið.

Ég var að horfa á afmælisþátt um RUV 75 ára í sjónvarpinu í kvöld. 
Þegar það var verið að sýna frá gamla tímanum þá rifjaðist nú sitt af hverju upp í huga mér.

Sérstaklega man ég þegar ég var að fara með strætó úr Kleppsholtinu niður á Lækjartorg og gekk þaðan yfir í gamla Landsímahúsið til þess að athuga hvort það væri nokkur póstur til Tómstundaþáttarins sem hann pabbi var með fyrir börn og unglinga.

Þegar ég var að fara ein í þessar ábyrgðarmiklu ferðir, líklega 9 ára eða svo,  þá er mér einna minnisstæðast hvað ég kveið fyrir því að fara með í lyftunni. Þannig hagaði nefnilega til í gamla Landsímahúsinu við Austurvöll, þar sem Ríkisútvarpið var þá til húsa, að það þurfti að fara upp á, að mig minnir fjórðu hæð  í mjög sérkennilegri skröltandi lyftu með grindum fyrir og lyftuvörður fór með í lyftunni. Þetta vandist þó smám saman eins og annað.

Ég kom alltaf heim með bunka af bréfum í tösku og þá vissi ég að ekki þýddi að tala við pabba næstu klukkutímana á meðan hann var að fara yfir bréfin. Svo fylgdu útréttingarnar. Það var alveg ótrúlegt hvað fólki datt í hug að biðja hann um að útvega sér af alls konar efnivið.  Honum fannst þetta auðvitað alveg sjálfsagt, þó launin hans væru reyndar bara fyrir tímann sem flutningur þáttarins tók hverju sinni. Sömu laun og ef hann hefði komið og lesið upp úr bók. En, hann var ekkert að fást um það því hann hafði brennandi áhuga á þessu málefni og þeyttist út um allan bæ til þess að útvega hitt og þetta og koma því síðan í póst. Ekkert var hann að ganga eftir því ef einhver sendi ekki peninga og allir fengu sömu þjónustuna. Ekki var bíl til að dreifa á heimilinu svo það var ýmist farið í strætó eða gangandi. 
Móðir mín sagðist stundum að hún væri viss um að fólk gerði sér enga grein fyrir því hvað hann legði mikla vinnu í þennan þátt.  En þessi þáttur var líf hans og yndi í þau 15 ár sem hann var sendur út á öldum ljósvakans. Síðan komu nýir tímar með sjónvarpi og öðrum hugðarefnum sem unglingar fóru að fást við og þörfin fyrir svona þætti því ekki lengur eins brýn.

Af því að þetta kom nú upp í hugann þegar ég var að horfa á þessa afmælisútsendingu í kvöld þá var ég svollítið vonsvikin að hans skyldi ekki getið og heldur ekki Baldurs Pálmasonar sem var með barnatíma í a.m.k. eins langan tíma ef ekki lengur. 

Æ, er ég farin að nöldra? Það var nú ekki meiningin. Þetta átti bara að vera ljúf endurminning en svona er þetta þegar maður byrjar að skrifa þá veit maður ekkert hvar maður lendir með skrifin sín.  

Kær kveðja til ykkar allra sem nennið að lesa.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to Útvarpið.

  1. Svanfríður says:

    Nenna að lesa?!? Það er svo gaman að lesa skrifin þín. Ekki sá ég þáttinn en mér finnst nú að það hefði átt að minnast á þá. Þeir eru jú hluti útvarpssögunnar. Góðar stundir, Svanfríður

  2. Linda says:

    Það kemur mjög á óvart að þáttur föður þíns skildi ekki nefndur.. 15 ár er þokkalega langur lífaldur í útvarpi og hefði auðvitað átt að vera nefndur sem hluti af útvarpssögunni.. Því hann er það..

    Og það er ekkert að nenna að lesa skrif þín, þú skrifar beint frá hjartanu.. og það getur aldrei klikkað..

    Bestu kveðjur

  3. afi says:

    Þarna er afi hjartanlega sammála. Í svona löngum þætti hefði mátt koma víðar við. Þarna var margt sem vantaði í söguna. Öðru gerð kannski ytarlegri skil á kostnað annars. Þó er eitt sem kann að hafa ráðið einhverju, það er myndefnið og tímaleysið sem háir oft á tíðum gerð svona þátta. Eins það að láta aðeins einn mann um svona þáttargerð. Þarna hefðu fleiri átt að koma að. En það er ekki við öllu séð. Ekki sá afi þáttinn í heilu lagi, var í Grindavík í gærkvöldi. En var nokkuð minnst á Helgu og Huldu Valtýsdætur eða Skeggja Ásbj.? Kannski er það efni í annan þátt, allt sem vantaði í þennan.

  4. Sigurrós says:

    Það er alltaf gaman að lesa bloggið þitt, mamma 🙂 Hlakka til að hitta þig á eftir og fara í jólaútréttingarnar! 🙂

  5. Ragna says:

    Vantaði ýmislegt.
    Þakka ykkur öllum. Ég ætla að svara spurningum þínum Afi af því þú sást ekki þáttinn. Það var heldur ekkert minnst á Skeggja Ásbjarnar og þær systur Helgu og Huldu. Það var heldur ekki minnst á morgunleikfimiþættina hans Valdimars Örnólfssonar og hafa þó fáir verið í útvarpi með þátt lengur en hann var. Hinsvegar var nútímanum gerð mun betri skil og eins tónlistinni. Það hefði mátt sleppa því að flytja heilu tónverkin og stikla frekar á stóru í öðru.
    Annars eru þeir ekki öfundsverðir sem eiga að sjá um svona samantekt því allir vilja fá sitt.
    Kær kveðja,

  6. afi says:

    Hátíð í nánd
    Gleðilega hátíð og heillaríkt komandi ár. Þakka þér fyrir að fá að njóta með þér skemmtilegra minninga og góðra ljósmynda. Vonandi verður komandi ár jafn skemmtilegt.

Skildu eftir svar