Mjög skemmtileg borgarferð.

Í gær skellti ég mér í bæinn til þess að fara í saumaklúbb. Ég fór snemma til þess að geta verið aðeins með Sigurrós minni, sem ég hitti allt of sjaldan. Við ákváðum að skreppa í Smáralind og fá okkur eitthvað í svanginn þar og skoða smá í búðirnar.  Við áttum góðan tíma saman og ég skilaði henni svo heim og hélt sjálf á Austurbrúnina. Þar horfði ég á fréttirnar og dottaði í stólnum hans Hauks á meðan hann hafði það huggulegt í Sóltúninu.

Það var síðan stutt að fara í Sæviðarsundið til Sonju. Ég tók nokkrar myndir  en athugaði ekki að hlaða batteríið á myndavélinni áður en ég fór í bæinn því það kláraðist.  Ég var svona að hugsa um að keyra aftur heim eftir saumaklúbbinn en sá svo að það yrði ósköp notalegt að fara bara og gista á Austurbrúninni og aka síðan austur þegar það væri orðið bjart af degi.

Áður en ég ók austur heimsótti ég höfuðstöðvar RÚV og Sjónvarpsins þar sem mín allrabesta vinkona vinnur. Hún hefur oft verið að segja mér að koma og í gærkvöldi ítrekaði hún það við mig að koma nú í heimsókn áður en ég færi austur. Ég ákvað  því að láta verða af því í þetta sinn.  Það var tekið á móti mér eins og ég væri VIP og ég fékk að fara ásamt henni í fylgd með mjög geðþekkum tæknimanni í skoðunarferð um allt útvarpshúsið. Hann sýndi okkur alla króka og kima stofnunarinnar. Þetta var alveg einstaklega skemmtilegt og fróðlegt. Edda hefur auðvitað skoðað þetta áður en hafði þó ekki komið á alla staðina fyrr.
Verst að batteríið var búið í myndavélinni annars hefði verið gaman að eiga myndir. Ég er þó ekkert viss um að það hefði verið leyfilegt að taka myndir þarna.

Þessi heimsókn til RUV tók öðru fram í þessari borgarferð og ég þakka bara kærlega fyrir mig.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

11 Responses to Mjög skemmtileg borgarferð.

  1. afi says:

    Þetta hefur verið hin ágætasta ferð. Gaman hefði verði að fá að fljóta með. Þetta með myndatökuna í RÚV hljómar svolítið einkennilega, er ekki verið að taka þar myndir alla daga?

  2. Þórunn says:

    Bæjarferð
    Alltaf lendir þú í ævintýrum, vinkona góð. Nú er bara að drífa sig og kaupa aukarafhlöðu og hlaða hana strax. Það er óþolandi að lenda í svona aðstöðu eins og að gleyma myndavélinni eða klára út af rafhlöðunni.

  3. Ragna says:

    Ja afi minn sæll, en ég býst við að ömmubörnin mín hefðu nú þegið að sjá mynd hjá ömmu af Birtu og Bárði hjá sminkunni.

  4. Ragna says:

    Rafhlöðurnar.
    Ég veit ekki hvort ég fæ þessa sérstöku rafhlöðu nema í ljósmyndavöru versluninni sem hefur umboð fyrir myndavélina mína. Það er bara trassaskapur hjá mér að vera ekki búin að athuga þetta.

  5. afi says:

    Ömmubörn
    Satt segirðu, ömmubörnin hefðu orðið ánægð með það. Þú tekur þau bara með næst. Er það ekki? En sástu ekki fréttamenn sem hefði verið gaman að afmynda?

  6. Ragna says:

    Mynda-myndarlegir- afmynda
    Fréttamenn, já þú segir nokkuð. Ég veit ekki hvort ég rakst á nokkra sem voru það myndarlegir að ég hefði þörf fyrir að afmynda þá.

  7. Sigurrós says:

    Já, það var aldeilis gaman hjá okkur í gær! 🙂 Og það sem við vorum spenntar að hlusta á handboltann í útvarpinu og sátum smá stund í bílnum á bílastæðinu fyrir utan Smáralind til að geta klárað að hlusta á leikinn áður en við fórum inn! Við þurfum endilega að gera þetta oftar (þó það sé ekki stórt mót í gangi í handboltanum…hehe).

  8. Edda Garðars says:

    borgarferð
    Didda mín,
    Takk fyrir síðast, og sérstaklega heimsóknina í RÚV, það var virkilega gaman að fara með þér í „ævintýri á gönguför“ um húsið, og ekki var nú lakara fyrir okkur vinkonurnar að fá svona góða samfylgd.
    En rúsínan í pylsuendanum var nú sennilega kennslustundin í bútasaumi, því áttirðu von á, á þessum stað. Eða hvað???
    Aftur, hjartans þakkir fyrir dúkinn, hann er svo fallegur og fer vel á borðinu mínu.

  9. Ragna says:

    Bútasaumsmaðurinn
    Já Eddamín, þetta var alveg frábært. Og frá síðan svona mikinn fyrirlestur um bútasaum og saumavélar frá karlmanni það er nokkuð sem kom á óvart. Ótrúlegt að karlmaður skuli búinn að sauma svona mikið af bútasaumsteppum eins og þessi Pétur sem við hittum á leiðinni út.
    Þakka þér aftur margfalt mín allra besta.

  10. Kolla says:

    Ó hvílík veisla hjá Sonju!. Verst að missa af klúbbfundi en gaman að sjá ykkur stöllurnar. Skoðunarferð um Eddu vinnustað hlýtur að hafa verið skemmtileg. Í gærkveldi var ég þó í stofnunar spilaklúbbi (Bunco, teningaspil) hjá Ingunni,
    og át hennar kræsingar. Tólf kvinnur. Það var gaman, ekki síst af því að ég fór heim með pottinn ($30) og “dyra-verðlaunin” (door prize). Kveðjur og þakkir fyrir spjallið.

  11. Ragna/Didda says:

    Allt of langt í burtu
    Mikið hefði ég nú viljað vera komin til hennar mágkonu minnar og vera þar með ykkur. Hún er einstök hún Ingunn að koma fólki saman og aldrei nein lognmolla í kringum hana. Ef þið væruð ekki í svona hræðilega mikilli fjarlægð frá mér þá væri ég búin að koma í heimsókn.
    Kær kveðja til Bellingham.

Skildu eftir svar