Fimmtudagspistill á föstudegi.

Nú flakkar Selfossamman daglega til Reykjavíkur. Í dag  var farin enn ein ferðin í þágu vísindanna. Ég hélt að þetta væri þriðja síðasta ferðin en sem betur fer var þetta sú næst síðasta.  Ég var reyndar hjá þeim á rannsóknarsetrinu í tvo og hálfan tíma en fékk ekki nýjan lyfjaskammt með mér heim og á bara að skrifa öndunarmælingarnar næstu tvær vikur og þá er þetta búið.

Ég var svo heppin að þurfa ekki að aka sjálf í bæinn því Guðbjörg þurfti að fara með Odd Vilberg og amma var bara tekin með og skilað heim aftur.  Lúxus. Svo mátti ég til með að hringja til hennar Þórunnar í Portúgal þegar ég kom heim til þess að vita hvernig hún hefði það á afmælisdaginn. það var auðvitað ekki að því að spyrja að hún hafði það gott og Palli búinn að dekra við hana allan daginn.

Svo ætlaði ég að horfa á leik Íslendinga og Norðmanna í handboltanum en ákvað að setjast heldur hérna við tölvuna því ég hef ekki taugar til að horfa á strákana þegar þeim gengur svona illa. Ömurlegt þegar okkur hefur gengið svona vel fram að þessu og búin að vinna Rússa, að tapa svo fyrir Norðmönnum sem hafa ekkert stig í keppninni. Ég hef ekki taugar til að fylgjast með svona tapi og ákvað því að setja í staðinn nokkrar línur á bloggið mitt.

Best að fara nú að koma sér í að steikja laxinn sem ég ætla að hafa í matinn á eftir.

Ég bið bara að heilsa ykkur öllum.

Þetta er sem sé skrifað síðdegis á fimmtudag – ég nenni ekki að breyta því þó kominn sé föstudagur.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Fimmtudagspistill á föstudegi.

  1. afi says:

    Grátur
    Þetta er nú meira útstáelsið á minni þessa dagana. Eilíft flandur og flakk. Munur að þurfa ekki að aka sjálfur. Hanndboltastrákrnir hafa staðið sig vel þrátt fyrir allt. afi heldur að við gerum allt of miklar kröfur til þeirra. Eða of miklar vonir. En ekki þýðir að gráta orðinn hlut heldur að bretta upp ermarnar. Svo er bara að blása í seglin og gera sitt besta í þeim leikjum sem eftir eru.

  2. Sigurrós says:

    Það er auðvitað ómögulegt eins og reyndin var á þessu móti, að „aðal“strákunum sé teflt fram í hverjum einasta leik í stað þess að hvíla þá í ómerkilegri leikjum sem skipta litlu máli. Þetta þýðir að þeir eru útkeyrðir og eiga bara ekki nægilega orku eftir þegar líður á.

  3. Ragna says:

    Finn til með strákunum okkar.
    Þá er bara spurningin hvaða leikir eru merkilegir og hverjir ekki. Þeir þurftu nú að hafa fyrir þessu öllu og voru búnir að missa út tvo úr byrjunarliðinu í slys . Mér fannst Norðmenn ekki þurfa að fara svona illa með þá því þeir sjálfir höfðu engu að tapa og gátu alveg leyft sér að slappa aðeins af.
    Annars er það fyrst og fremst sem ég finn svo til með „strákunum okkar“. Þeir voru búnir að gera sitt besta í öllum leikjunum nema kannski þessum síðasta og voru alveg niðurbrotnir eftir tapið í gær.

  4. Stefa says:

    Æj já
    Þeir reyndu sjálfsagt sitt besta strákarnir en gekk ekki sem skyldi. Ég er nú minnsta íþróttaáhugamanneskjan en merkilegt hvað handboltinn kemur aftan að manni. Það er a.m.k. eitthvað að gerast í þeim leikjum 🙂

    Já og takk fyrir innlegin á síðunni minni – gaman að sjá að einhver les yfir þetta 🙂

    Kær kveðja í „sveitina“
    Þín Stefa

  5. Linda says:

    Það er þetta taugarnar og handboltann.. Ósjaldan hafa þær verið þandar til hins ýtrasta á meðan maður fylgist með hverri kollvitleysunni á fætur annarri sem liðið gerir..
    Maður lifir sig allt of mikið inn í þennan leik hjá þeim..

Skildu eftir svar