Að skrifa sig frá pirringnum.

Nú er gamla konan í Sóltúninu alveg að gefast upp á þessu dimmviðri. Það er nefnilega svo þegar gigtin er farin að hrjá mann að svona veður getur alveg gert útaf við mann.  Ég er búin að reyna að sjá allar björtu hliðarnar á þessum hlýindum, en svona lágþrýstingur með þoku og rigningarsudda dag eftir dag fer á endanum í pirrurnar og nú ætla ég að leyfa mér að vera ferlega pirruð yfir þessu. Þeir sem berjast við gigt vita hvað ég er að tala um.

 – Eða hvað, á maður ekki að reyna að þrauka aðeins lengur og halda áfram að finna ljósu punktana því auðvitað styttir upp – einhverntíman. Er ekki sagt að öll él birtii upp um síðir?  Það hefur alla vega verið mín reynsla á lífsleiðinni. Þó að mörg élin hafi verið dimmari en önnur og ekkert útlit fyrir birtu þá hefur birtan alltaf komið og yljað fyrir rest.  Það er líka gott að hugga sig við það að einungis sé um að ræða dimmu sem veður orsakar,  því það eru allt of margir að berjast við annars konar dimmu í sínu lífi.

Mikið var nú gott að ég settist við tölvuna og skrifaði mig frá þessum pirringi. Nú líður mér miklu betur – alla vega á sálinni.

Barnabörnin eru að koma til mín á eftir og ætla að gista hjá ömmu í nótt.  Ég verð því í góðum félagsskap að horfa á söngvakeppnina í kvöld. Ég hringdi í Karlottu til þess að fá að vita hvað þau langaði mest til að fá í matinn. Amma, best væri að fá svona Svikinn héra með bakoni ofaná. Ja, ekki datt ömmu í hug að það yrði beðið um svona mat. Hélt að það yrði pizza eða hamborgarar eða eitthvað svoleiðis. Nú verður amma að fara að laga til í kollinum á sér og rifja upp hvernig hún útbýr svikinn héra – nú ef ekki þá segir hún bara að þetta sé svikin  kanína.   Aldrei að vita hvað svona ömmum dettur í hug.

Ég óska ykkur öllum góðrar helgi og drífum okkur í að dansa sólardans svo það verði bjartara á morgun.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Að skrifa sig frá pirringnum.

  1. Sigurrós says:

    Svikinn eða falskur?
    Við kölluðum hann nú alltaf falskan héra þegar ég var lítil… það hefur kannski verið einhver annar héri? 😉

  2. Mamma says:

    Já mig minnti það nú líka. Ég er nú alveg hætt að vera að búa til svona úr kjötfarsi en Svikinn héri var pantaður og Svikinn héri var búinn til og líkaði bara vel.

  3. Svanfríður says:

    Þetta verður bara svona „ömmusurprise“:)

  4. afi says:

    Hvað sem öðru líður hefur maturinn verið Ósvikinn.

  5. Ragna says:

    Ósvikinn og bara góður.
    Við hjálpuðumst að við eldamennskuna og allir voru glaðir. Ekki var svo verra að hafa félagsskapinn áfram um kvöldið til að horfa með sér á söngvakeppnina.

Skildu eftir svar