Góðar heimsóknir og vísindasetrið kvatt – allavega í bili.

Mikið var ég ánægð í gærmorgun þegar ég sá hvað veðrið var gott. Ég átti nefnilega ferð til Reykjavíkur fyrir höndum eftir hádegið. Ég var líka að hugsa um það á leiðinni í bæinn að þetta væri í fyrsta sinn í vetur sem ég færi á milli í svona góðu veðri.

Ég heilsaði fyrst upp á "gömlu" hárgreiðslukonuna mína sem ég hef ekki farið til síðan við vorum þar nokkrar úr fjölskyldunni morguninn sem Sigurrós gifti sig í sumar. 
Á leiðinni upp á Austurbrún þá kom ég við hjá gamalli konu sem ég kynntist á HNLFÍ í Hveragerði en hún býr á Sundlaugaveginum. Ég var svo heppin að hún hafði átt von á konu sem ekki skilaði sér í heimsókn til hennar og fullur diskur af nýbökuðum pönnukökum stóð mér því til boða með kaffinu.

Ég átti nú eftir að innbyrða fleiri kaloríur þennan daginn því um kvöldið fór ég til Magneu en hún bauð okkur sem unnum saman í Borgartúninu í heimsókn til sín. Því miður forfölluðust nokkrar svo mætingin varð ekki eins góð og oftast  en við ætlum að bæta úr því í vor.

Svo í morgun fór ég í síðustu heimsóknina í þágu vísindanna og er nú laus allra mála hjá þeim. Það er ekki víst að við sem tókum þátt í rannsókninni fáum að vita hvort við tókum lyf eða lyfleysu en það væri gaman að vita hvort það er vegna þess að ég hafi tekið lyfið, að ég hef ekki fengið neitt slæmt astmakast í vetur.

Eins og ég var alsæl með hvað veðrið var gott á leiðinni í bæinn í gær þá leist mér ekki á blikuna á heimleiðinni undir hádegið í dag. Þegar ég var komin í Svínahraunið var kominn alveg blindbylur. Ég reyndi bara að fylgja stikunum og þegar ég sá ekki stiku fyrir framan mig þá hálfstoppaði ég og beið eftir að aðeins rofaði til. Það var mjög hvasst og ég sá á skiltinu við Litlu Kaffistofuna að það voru 23metrar á sek.  Mikið rosalega var ég fegin þegar ég var komin að Kömbunum því þá slotaði bylnum þó hvasst væri ennþá. Best var svo auðvitað þegar ég var komin heim.

Svona leit Esjan út seinni partinn í gær séð af 11. hæðinni á Austurbrúninni.

esjan_alltaf_fallegjpg.jpg

Og falleg voru austurfjöllin líka.

austurfjollinjpg.jpg

og kvöldhimininninn í ljósaskiptunum í kvöld.

kvoldhiminn.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

9 Responses to Góðar heimsóknir og vísindasetrið kvatt – allavega í bili.

  1. Hulla says:

    Æðislegar myndir!!´
    Kveðja og kossar héðan

  2. Atli Haukur says:

    Hæhæ
    Hlakka til að þið afi komið í sumar. Vona að þið takið nokkrar myndir með ykkur til að sýna okkur.
    Bæbæ Atli

  3. Ragna says:

    Atli minn!
    Hvernig myndir viltu að við komum með. Ljósmyndirnar okkar eru nánast allar inni á heimasíðunni minni. Ef þú vilt að við tökum fyrir þig myndir af einhverju sérstöku, þá endilega láttu mig vita og þá fer ég bara og tek myndir fyrir þig.

  4. Svanfríður says:

    Er ekki gott að vísindunum sé lokið af þinni hálfu í bili? Fallegar myndirnar þínar Ragna.
    Taktu eftir nýrri bloggadressu hjá mér..endilega kíktu við.

  5. Ragna says:

    Svanfríður mín!
    Ég var búin að setja comment á nýju síðuna þína en hef eitthvað klúðrað því. Vissi ekki hvaða password ég ætti að nota en sá svo núna að ég átti að nota „other“ og þá gekk allt upp.

  6. afi says:

    Eistök
    Ef afi hefur ekki sagt það áður lætur hann það flakka nú: Þú er alveg einstök. .. Og myndirnar þínar líka. Hafðu það og hananú. Það er ekki alslæmt að taka þátt í svona rannsókum, nema síður sé. Það veit afi af eigin raun. Það er ekkert gamanmál að aka Hellisheiðina í snarvitlausu veðri. Dugleg ertu. Kveð sérstaklega og bið þig vel lifa.

  7. Linda says:

    Ég segi eins og afi.. þú ert einstök..

    Mér líst ekkert á að þú sért að þvælast yfir hóla, hæðir og fjöll í snjóbylum og blindu.. ég segi bara sem betur fer eru þessar „vísindaferðir“ alla vega búnar..
    Myndirnar eru glæsilegar hjá þér og vekja upp heimþrá hjá mér.. en ég verð að bíða í nokkra mánuði..

  8. Þórunn says:

    Ja hérna Ragna, ég hefi bara snúið við í Svínahrauninu, ég er ekki meiri hetja en það við akstur í vitlausu veðri. Þú ert hetja. Það sannar sig enn og æ að þú áttir skilið að fá góða myndavél. Það er unun að horfa á myndirnar þínar.

  9. Gurrý says:

    Fallegt
    Mikið eru þetta fallegar myndir, finn fyrir söknuði alltaf þegar ég sé svona fjallamyndir..

Skildu eftir svar