Föst í áframhaldandi endurminningum núna.

Er ekki sagt að lítil þúfa velti þungu hlassi. Það er ekkert lát á þeim minningum sem nú brjótast fram hjá gömlu konunni. Hún ætlar því að leyfa sér að pára þær hérna niður. En ekki ætlast hún nú til þess að nokkur nenni að pæla í gegnum þetta, en það gerir heldur ekkert til.

Stúlkan, sem var nýorðin 16 ára, fór í Tígulklúbbinn sem var fyrir unglinga á vegum Æskulýðsráðs Reykjavíkur. Pabbi hennar hafði hvatt hana til þess að koma, en hann sá um þessi skemmtikvöld sem voru á fimmtudagskvöldum. Hann hafði áður talað um að hún kæmi með sér, en hana hafði einhvernveginn ekki langað til þess fyrr en núna.  Hún fékk skólasystur sína til þess að koma líka.

Þegar þær komu í salinn þar sem skemmtunin var haldin þá fundu þær sér sæti úti í horni þar sem lítið færi fyrir þeim, enda báðar feimnar.  Til að byrja með sátu þær bara tvær við borðið. Nokkru seinna gengu tveir ungir herramenn í salinn, litu aðeins í kringum sig og komu síðan rakleitt að borði stúlknanna og sögðu þetta vera sitt borð hvort þeir mættu ekki allavega sitja þar líka. Stúlkurnar litu hvor á aðra og jánkuðu síðan. Það leið svo ekki á löngu þar til annar herrann bauð sögupersónunni okkar að dansa við sig. Þetta var nú ekkert rómantískur dans "Let’s twist again" en stúlkan fékk undarlegt kitl í magann og síðan urðu dansarnir fleiri og fleiri og þegar þau kvöddust var tekið loforð af stúlkunni um að koma aftur næsta fimmtudagskvöld – eða, –  mætti kannski hringja til hennar?

Næsta dag var kallað á stúlkuna í símann  og mamma hennar sagði að það væri einhver strákur í símanum, stúlkan varð kafrjóð og máttlaus í hnjánum en tók símann.  Það var verið að bjóða henni í bíó.  Næstu daga gekk stúlkan eins og í leiðslu og hrökk við í hvert sinn sem síminn hringdi.

Já svona leið tíminn í bíóferðum og dansi svo pabba stúlkunnar þótti nóg um enda hafði stúlkan alltaf verið mikil pabbastelpa og mikið heima á kvöldin.  Nú var kominn herra sem hafði algjöran forgang og stúlkan hafði allt í einu ekki eins mikinn tíma til að vera  heima.  Svona leið nú tíminn og rúmu ári seinna voru stúlkan og herramaðurinn bæði komin með gylta bauga á fingur og nú hafði þeim boðist húsnæði í Grófinni 1, uppi á loftinu þar sem stúlkan var þá farin að vinna.  Þau þáðu þetta húsnæði og tóku saman þær litlu eigur sem þau áttu hvort um sig í herbergjunum sínum og fluttu það í stóru stofuna sem þau höfðu  fengið til þess að búa í saman.   Þau voru full tilhlökkunar en það skyggði samt á að pabbi stúlkunnar var ekki sáttur við að hún færi að heiman en það breyttist fljótt þegar hann sá að unga fólkinu var algjör alvara með því sem þau voru að gera og að í staðinn fyrir að missa dóttur þá eignaðist hann son.

Ekki veit ég hvernig unga fólkinu sem kemur í Innlit útlit í dag að sýna flottu íbúðirnar sínar hefði litist á þann búskap sem unga parið byrjaði með.  En þau voru hamingjusöm og þá er allt svo auðvelt enda hamingjan ekki keypt fyrir peninga, þó gott sé að eiga nóg að bíta og brenna.  

Í nýja húsnæðinu sem var ein stór stofa, þá klæddu þau eitt hornið af með hengi, fengu nokkra ölkassa hjá  Ölgerð Egils Skallagrímssonar  en kassana máluðu þau og röðuðu saman og þar með var komin eldhúsinnrétting. Síðan fengu þau lánaða eldunarplötu og svokallaðan Gundapott sem hægt var að baka í, hjá gamalli ömmusystur og þar með var komið eldhús í íbúðina. Vatn varð hinsvegar að sækja fram á snyrtingu en það var nú ekki stórmál. 

Einn góðan veðurdag tveimur árum eftir að unga parið hóf frumstæða búskapinn sinn og leigði nú litla risíbúð í Kópavogi, þá bauðst þeim að fara í mjög ódýra ferð til Kaupmannahafnar. Aðdragandi þess var sá  að vinnuveitandi stúlkunnar, sem vann enn á sama stað í Grófinni 1, var m.a. formaður Frjálsíþróttasambands Íslands. Hann sagði að von væri á leiguvél frá Danmörku með íþróttafólk og til þess að vélin færi ekki tóm til baka þá var Framsóknarfélaginu í Reykjavík boðið að leigja hana fyrir lítinn pening og einhverja miða hafði hann svo til ráðstöfunar og fannst tilvalið að  leyfa unga parinu að komast til útlanda fyrir lítinn pening og bauð þeim því miða. Hvorugt hafði nokkru sinni komið upp í flugvél, hvað þá til útlanda.

Ég á fastlega von á að  setja inn færslu um atburðarrásina sem fór í gang við að fá þessa miða í utanlandsferðina.

Góða helgi.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

9 Responses to Föst í áframhaldandi endurminningum núna.

  1. afi says:

    Þetta er falleg saga. Einmitt svona byrja oft löng og farsæl ævintír.

  2. Þórunn says:

    Að bjarga sér
    Það verður gaman að fylgjast með framhaldssögunni. Unga fólkið sem tekur mikil lán til að byrja að búa nú til dags, gæti margt af þessari sögu lært. En svona var þetta í „gamla daga“ og menn voru lukkulegir með sitt.
    Góða helgi.
    Þórunn

  3. Sigurrós says:

    Ég verð alla vega að segja fyrir mitt leyti að ég er mjög ánægð með að þessi ungu piltur skuli hafa sjarmerað ungu stúlkuna svona upp úr skónum 😉

  4. Svanfríður says:

    Þetta var falleg saga og ég sat og brosti á meðan ég las. Það er nefnilega alveg rétt sem þú segir að hamingjan fæst ekki keypt fyrir peninga. Ekki að ég sé að bera okkur saman en þegar ég sleit trúlofun og flutti norður þá átti ég ósköp lítið. Skóhillur, bókahillur og óhreinatauskörfur voru byggðar úr sterkum pappakössum og virkuðu ágætlega:) Bara að bjarga sér:)
    Hann hefur verið kurteis ungi maðurinn sem bauð þér upp í twist! Svona á líka að fara að því. Ég hlakka til að lesa meira. Góða helgi, Svanfríður

  5. Gurrý says:

    Hlakka til næsta kafla 🙂

  6. afi says:

    Grófin 1
    Sonur afa og hans kona, hófu sinn búskap einnig í Grófinni 1, en í kjallaranum, sem var einn geimur. Þau notuðu einnig kassa, hillur og tjöld, til að hólfa rýmið. Þá starfaði sonurinn sem kokkur á Naustinu. Eldhúsið var lítið horn sem þætti ekki boðlegt í dag.

  7. Ragna says:

    En skemmtilegt að heyra þetta afi, sonur þinn hefur sem sé byrjað sinn búskap í kjallaranum en ég í risinu á þessu gamla virðulega húsi. Ég kom á hæðina á meðan Slysavrnarfélagið var með hana, áður en Everest Trading flutti þangað og þá var þetta svo glæsilegt allt saman.

  8. Linda says:

    Þetta er skemmtileg frásögn, og ég er strax farin að hlakka til áframhaldsins.
    Er ekki undarlegt hve fyrsti búskapur fólks hefur breyst á þessum örfáu árum?? Ég man þegar mamma og pabbi byggðu sitt fyrsta hús, þá voru steingólf máluð og eldhúsinnrétting var úr smíðuðum kössum með heimatilbúnum „gardínum“ sem komu í staðinn fyrir skápahurðar..

  9. Ragna says:

    Já Linda mín! Auðvitað var hengi strekkt fyrir með gormi í staðinn fyrir skápahurðir.

Skildu eftir svar við Svanfríður Hætta við svar