Bílaskipti – Námskeið um starfslok o.fl.

Ekki kemur nú framhaldið af gömlu rómantíkinni fyrr en eftir helgi. Í gær og í dag hef ég haft öðrum hnöppum að hneppa.

Ég fór í borgina í gær og byrjaði á því að fara í klippingu og snurfus í Skipholtið síðan hittumst við Haukur og hann fór með mér á bílasölur. það stendur nefnilega til að ég fari að skipta honum POLO blámanni út fyrir nýrri bíl. Hann er nú átta ára á þessu ári og þó hann sé í fullkomnu standi þá ætla ég að reyna að skipta honum út, jafnvel fyrir nýjan, áður en hann verður verðminni hjá mér sökum aldurs (þ.e.a.s. aldurs hans). Ég er samt voða montin að segja frá því að á þessum átta árum hef ég aðeins ekið 60.000 km. sem er akkúrat helmingur af því sem þetta gamlir bílar eru eknir svo ef þið vitið um kaupanda þá er ég með svakalega gott og vel þjónustað eintak af sjálfskiptum bláum PÓLÓ. Ég skoðaði líka nokkra nýja litla bíla og nú er bara að fara yfir fjármálin og leggjast síðan undir feld og spá í næsta skref.

Eldsnemma í morgun fórum við Haukur svo suður í Straumsvík, en Alcan bauð starfsmönnum sem eru komnir nálægt starfslokum og mökum þeirra á námskeið um starfslok.
Þórir S. Guðbergsson ræddi um allt það jákvæða sem fylgir því að hætta að vinna og reyndar einnig það neikvæða en það neikvæða varð einhvernveginn svo fátt og smátt í samanburði við það jákvæða.

Síðan ræddi Gylfi Ingvarsson aðaltrúnaðarmaður um sveigjanlegu starfslokin hjá Alcan. En þeir eiga mikinn heiður skilinn fyrir hve vel þeir standa að því að styðja fólk við starfslok. Þar eru einstakir samningar í gangi sem mér skilst að ekkert annað fyrirtæki sé með.

Síðan kom fulltrúi Tryggingastofnunar. Hún var nú svona aðallega að skýra frá því að allt þetta slæma sem fólk kvartaði yfir væri ekki þeim að kenna heldur ríkisstjórninni. Hún reifaði svo þetta helsta sem snýr að eldri borgurunum en það var svo sem fátt að frétta úr þeim frumskógi sem Tryggingastofnun er, enda er sagt að starfsfólkið skilji ekki einu sinni sjálft reglurnar sem þar eru settar.

Svo ég stikli nú á stóru, þá talaði bráðskemmtileg kona, Berglind Magnúsdóttir um Líf eftir starfslok. Fulltrúar frá Lífeyrissjóðum um peningamálin , Félagsráðgjafi um Félagslega þjónustu og síðan kom hún Guðrún Níelen kennari og snaraði okkur í leikfimi og dreif okkur út á gólf í hringdans og lét okkur marsera með leikfimiæfingum inn á milli.

Þetta var alveg frábært námskeið og ég er þakklát Alcan fyrir að viðhengin máttu koma líka. Þetta var mjög vel skipulagt og frábærar veitingar. Morgunkaffi með meðlæti, hádegisverður með súpu á undan og nautakjötspottréttur í aðalrétt. Síðan var sko endað á því í kaffitímanum að bjóða uppá flotta rjómatertu. Ég segi nú bara. Geri aðrir betur.

Ég set hérna inn mynd frá námskeiðinu. Þórunn mín, þekkir þú nokkurn á myndinni?

alcan.jpg

Að námskeiðinu loknu drifum við okkur svo heim á Selfoss til að safna kröftum fyrir morgundaginn en þá fer ég aftur í bæinn og tek barnabörnin með. Við Sigurrós ætlum nefnilega með Karlottu og Odd Vilberg í Borgarleikhúsið að sjá Ronju ræningjadóttur.

Já, auðvitað fórum við beint í Grundartjörnina þegar við komum austur því Haukur var ekki búinn að sjá nýja "afa"strákinn og svo var Magnús Már búinn að baka þessar fínu vöfflur handa okkur.

Litli bróðir verður bara heima á morgun hjá pabba og mömmu sem er með matarbúrið, en þar vill hann helst alveg halda til. Það kom upp sú tillaga að kalla hann Spenmund.

Hér er hann eftir góða máltíð.

sveinninn_uingijpg.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Bílaskipti – Námskeið um starfslok o.fl.

  1. Svanfríður says:

    Spenmundur! Glæsilegt nafn og ég sprakk úr hlátri þegar ég las þetta:)

  2. Þórunn says:

    Æviskeið
    Þetta hefur verið alveg bráðnauðsynlegt og skemmtilegt námskeið. Svona ætti að bjóða öllum uppá sem eru að nálgst starfslokin.
    Jú ætli ég þekki ekki hann stóra bróður minn þarna, hann hefur einmitt verið að venja sig „af vinnunni“, með þessum sveigjanlegu kjörum sem Alcan býður sínu fólki. Alveg einstaklega hugulsamt af þeim.
    Svo er það ungviðið, fyrir honum liggur svo fyrsta skrefið í að venja sig af „spenanum“. Það reynist stundum sársaukafullt. En í augnablikinu er hann alsæll eftir sopann sinn. Einstaklega fallegt barn.

  3. Edda Gardars says:

    fallegur
    Elsku Didda mín,
    mikid er hann fallegur nýji ommustrákurinn tinn.
    Hlakka til ad fa ad sja hann i eigin persónu.
    astarkvedja hedan frá Kanarí
    tin Edda GG
    ps. Nonni bidur ad heilsa

  4. afi says:

    Ótrúlegt
    Já afa finnst það ótrúlegt að svona námskei skuli ekki vera á öllum stærri vinnustöðum. Þetta er gott framtak og eiga þei sem að þessu standa heiður skilið. Hann er svo sætur og krúttlegur hann litli Spenmundur.

  5. Gurrý says:

    Þetta er alveg frábært framtak hjá vinnuveitenda að halda svona námskeið, fyrsta skipti sem ég heyri um svona. Það hefur hingað til verið ömurleg tilfinning að vakna einn mánudag á miðju ári og fara ekki í vinnuna eftir að hafa gert það í tugi ára. Faðir minn sálugi átti erfitt með það allavega.
    Vonandi fær Spenmundur litli nafn fljótlega, ekki væri það gaman fyrir hann ef þetta festist. En hann er voða mikið krútt og þvílíkar bollukinnar…mjólk er góð, það má nú segja 🙂

Skildu eftir svar