Fermingar og Limmósíur

Þá er nú komið að fermingunum og auglýsingar glymja um allt það sem æskilegt er að gefa blessuðum börnunum í fermingargjöf. Allt frá digital myndavélum og húsgögnum upp í heimabíó.

Eitt vakti þó furðu mína en það er auglýsing um leigu á limmosíum til þess að aka fermingarbörnunum í til kirkju, í myndatöku og í veisluna. það kom svo frétt um þetta í sjónvarpinu svo maður gæti nú barið þessa nýinnfluttu glæsilimmu augum. 10 manna Hummer með þremur börum og jú, sá sem sá um þennan rekstur og var tekið viðtal við sagði að það væru farnar að berast pantanir.

Er fólk búið að tapa glórunni? Er ekki orðið nóg að fólk leigi dýrustu hótel borgarinnar undir fermingarveislurnar, þangað sem öllum er boðið hvort sem fólk hefur nokkru sinni litið fermingarbarnið augum á ævi þess eða ekki, svo það sé ekki líka með stórar limmosíur með mörgum börum á leigu allan fermingardaginn til þess að undirstrika nú enn frekar hvað þetta sé allt fínt. Hvað er orðið af innihaldi fermingarinnar? Ætli það sé ekki algjörlega týnt í þessum glæsiumbúðum. Má ég þá biðja um gamaldags kaffiboðin heima í stofu á fermingardaginn með þeim ættingjum og vinum sem barnið þekkir og umgengst.

Það þykir kannski ekki fínt í dag að hafa svona fámennar gamaldags heimaveislur og vissulega gefur það ekki eins mikið í aðra hönd fyrir fermingarbarnið en hugsanlega skilur það meira eftir en brjálæðið eins og ég lýsti hérna fyrir ofan.

Ég er ekki viss hvort ég myndi þiggja boð um að mæta í fermingarveislu barns sem ég  kann engin deili á, þó ég þekki eða hafi þekkt eitthvað  foreldra þess. Fram að þessu hef ég ekki þurft að  taka afstöðu til slíkra boða,  en ég hef heyrt fólk kvarta yfir því að vera boðið í slíkar fermingarveislur.

Nú segir einhver, " Það er nú meira hvað hún Ragna getur verið mikill tuðari" en ég er með breitt bak og get alveg tekið því.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to Fermingar og Limmósíur

  1. Svanfríður says:

    Mér finnst þú bara enginn tuðari-mér finnst þetta allt rétt sem þú segir. LIMMÓSÍA fyrir 13-14 ára gömul börn?!?! Jahérna hér. Þetta er bull þykir mér. Fermingarbörn í dag eru að fá hluti sem ég er að berjast við að kaupa mér í dag og þó er ég nú ekki gömul, það liggur við að ég hafi fermst í gær. Gömul kona sem bjó á elliheimilinu heima sagði mér einu sinni að hún hefði fengið póstkort í fermingargjöf frá föður hennar sem ekki gat verið heima á stóra deginum. Hún átti þetta póstkort og ljómaði við minninguna. Og hún hefur áreiðanlega kunnað fermingarversið utanbókar allt þar til hún dó.
    Hummer! PUH

  2. afi says:

    Glæsilegt
    Minna má það nú ekki vera. Eins og töffarinn við bílinn flotta sagði átti þetta einkum að höfða til fermingarpiltanna. Stelpur eiga greinilega ekki að hafa áhuga á slíku. Nú veit afi hvernig hann á að gleðja Barnabörnin sín þegar þeir fermast. Ætli það sé langur biðlisti? afi pantar strax í dag. Þeir verða glæsilegir sveinarnir þegar þeir koma akandi í Hummer í kirkjuna og svo bíður hann fyrir utan á meðan á athöfninni stendur. Þá er þeim ekið í myndatökuna og svo í veisluna á eftir. Bílinn bíður fyrir utan veislusalinn og ekur svo piltunum heim með allar fermingagjafirnar. Að sjálfsögðu verður barinn opinn allan tímann. Haldið að það verði munur? Ja hérna. Svo kalla gárungarnir fermingarbílinn vændishús á hjólum. Skárra er það nú.

  3. Ragna says:

    Já Svanfríður mín það hefur margt breyttst síðan þessi gamla kona fermdist. Það væri fróðlegt í dag að vita hvað börn muna mikið úr fræðslunni viku eftir fermingu.
    ——
    Ég hugsaði auðvitað ekki út í það Afi, að líklega væri þetta nauðsynlegt til þess að koma öllum gjöfunum heim – heimsk gat ég verið 🙁

    Ætli nokkurs staðar á heimskúlunni geti fólk verið eins ruglað og við hérna á litla Fróni sem þurfum alltaf að fara tvöfalt framúr því sem gerist flottast í ríkustu löndunum löndunum.

  4. Þórunn says:

    Hvar endar þetta?
    Ég ákki orð, hvar endar þetta eiginlega? Íslendingar virðas vera orðnir algjörlega ruglaðir. Ég man að fyrir nokkrum árum ráku læknar áróður gegn því að börnin færu í ljósabekki fyrir ferminguna. En þá tekur bara önnur vitleysa við, ekki betir. Ragna ég er sammála hverju orði sem þú segir. Og afi, þú ert nú meiri spaugarinn.

  5. Linda says:

    Ma-ma-maður bara á ekki til orð.. meira að segja bara farin að stama í skrifum, svo mikil er hneisan..

    Það er um að gera að leigja eitt stykki Hummer með bar, til að aka fermingarbarninu á milli staða.. það er nefnilega ljóst að hin venjulega heimilisbifreið er langt fyrir neðan virðingu barnsins á þessum stóra, dýra degi..

    Ef þú Ragna, kallar þig tuðara, þá er ég samúðartuðari..
    Mér er allri lokið..

  6. Gurrý says:

    Að nokkrum manni skuli detta svona í hug! Ég er svo hissa að ég veit ekki hvað ég á að segja…er þetta ekki bara seinbúið aprílgabb???

Skildu eftir svar